Vilja utanþingsstjórn

Borgarahreyfingin
Borgarahreyfingin mbl.is

Borgarahreyfingin vill að utanþingsstjórn taki við stjórnartaumunum á Íslandi, að því er fram kemur í grein Valgeirs Skagfjörð, formanns Borgarahreyfingarinnar á vef hreyfingarinnar. Borgarahreyfingin fékk fjóra menn kjörna á þing í vor en þeir hafa allir yfirgefið Borgarahreyfinguna.

„Borgarahreyfingin krefst þess að íslenskir ráðamenn komi hreint fram og sýni þann manndóm að ræða stöðu alvarlegra mála undanbragðalaust. Kominn er tími til að sameina krafta og hætta öllu flokkspólitísku karpi.

Utanþingsstjórn skipuð valinkunnu fagfólki og fræðimönnum gæti orðið það sameiningartákn sem þjóðin þarf svo nauðsynlega á að halda á sögulegum tímum sem þessum. Við stöndum á krossgötum og stuðningur þjóðarinnar sjálfrar er forsenda þess að vel fari.

Ekki verður lengur við það unað að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segi réttkjörnum fulltrúum almennings fyrir verkum og setji hagsmuni Breta og Hollendinga ofar hagsmunum Íslendinga sjálfra. Óvissan um það hverjir fara raunverulega með stjórn mála er óþolandi. Reynt skal með öllum ráðum að losa hreðjatak AGS og leita aðstoðar Norðmanna með fjárstuðning og baktryggingu auk pólitísks stuðnings frá öðrum Evrópuþjóðum.

Borgarahreyfingin styður auk þess þá ákvörðun Ögmundar Jónassonar að taka ekki þátt í ríkisstjórn blekkinga og þvingana og hvetur stjórnarliða til að láta ekki leiða sig eins og lömb til slátrunar," að því er segir á vef Borgarahreyfingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert