Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað breska kaupsýslumanninn Kevin Stanford og fjárfestingarsjóðurinn Kcaj LLP af kröfum VBS fjárfestingabanka um greiðslu samtals 5,1 milljónar punda, jafnvirði 1,1 milljarðs króna.
VBS lánaði félaginu Ghost Ltd. 5 milljónir punda í ágúst 2007 og að sögn íslenska bankans gengust Stanford og Kcaj í sjálfsskuldarábyrgð fyrir láninu. Ekkert hefur verið endurgreitt af láninu og Ghost er nú gjaldþrota. Þess vegna krafðist VBS þess að Stanford og Kcaj greiddu lánið.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir m.a. að engin tryggingaskjöl hafi verið undirrituð af hálfu Stanford og Kcaj og ekki heldur sérstök yfirlýsing um sjálfskuldarábyrgð þeirra.
Segir dómurinn, að undirritun þeira á lánasamninginn feli ekki annað í sér en að þeir samþykki hann eins og hann liggi fyrir, þ.á m. að með orðinu ábyrgð sé átt við sjálfskuldarábyrgð af hálfu ábyrgðaraðila. Í því felist ekki að þeir hafi tekist á hendur slíka ábyrgð.
Var VBS dæmdur til að greiða Stanford og Kcaj, sem er fjárfestingarsjóður í eigu Milestone, 1,5 milljónir króna hvorum í málskostnað.