Einkasjúkrahús rís í Mosfellsbæ

Hnjá- og mjaðmaliðaaðgerðir verða framkvæmdar hjá PrimaCare.
Hnjá- og mjaðmaliðaaðgerðir verða framkvæmdar hjá PrimaCare. Ásdís Ásgeirsdóttir

Einkasjúkrahús á vegum fyrirtækisins PrimaCare mun rísa í Mosfellsbæ. Viljayfirlýsing þessa efnis verður undirrituð milli fyrirtækisins og bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ síðar í dag. Vonast er til að framkvæmdir geti hafist strax á næsta ári og að hægt verði að taka á móti fyrstu sjúklingunum árið 2011 eða 2012.

Talið er að sjúkrahúsið og hótel sem byggt verður í tengslum við það geti skapað um 600-1.000 framtíðarstörf. Auk þess mun verkefnið skapa fjölda starfa á framkvæmdatímanum.

Sjúkrahúsið, sem er eingöngu ætlað útlendingum, verður með 120 herbergi og getur sinnt milli 4-6.000 sjúklingum á ári. Tvær tegundir aðgerða verða framkvæmdar á sjúkrahúsinu: hnjáliða- og mjaðmaskiptaaðgerðir. Þá er gert ráð fyrir að sjúklingunum fylgi fjölskyldumeðlimir svo hótel verður einnig byggt á staðnum.

Finnur Snorrason, bæklunarlæknir í Noregi, er þegar starfandi hjá PrimaCare en auk þess er verið að ræða við aðra lækna, bæði íslenska og norska. Þá eru einnig í gangi viðræður við bæklunarlækna í Orkuhúsinu um samstarf.

Fleiri sveitarfélög höfðu áhuga á verkefninu, m.a. var verið að ræða við Álftanes og Garð á lokasprettinum.

Að verkefninu koma fyrst og fremst einstaklingar og fyrirtæki hér á landi auk þriggja stórra erlendra samstarfsaðila sem munu koma að fjármögnun; ameríska fyrirtækið Shiboomi, verktakafyrirtækið Skanska, sem hefur m.a. byggt fjölda sjúkrahúsa og Oppenheimer Investment Group, sem mun fyrst og fremst sjá um að afla fjár til verkefnisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert