Einkasjúkrahús á vegum fyrirtækisins PrimaCare mun rísa í Mosfellsbæ. Viljayfirlýsing þessa efnis verður undirrituð milli fyrirtækisins og bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ síðar í dag. Vonast er til að framkvæmdir geti hafist strax á næsta ári og að hægt verði að taka á móti fyrstu sjúklingunum árið 2011 eða 2012.
Talið er að sjúkrahúsið og hótel sem byggt verður í tengslum við það geti skapað um 600-1.000 framtíðarstörf. Auk þess mun verkefnið skapa fjölda starfa á framkvæmdatímanum.
Sjúkrahúsið, sem er eingöngu ætlað útlendingum, verður með 120 herbergi og getur sinnt milli 4-6.000 sjúklingum á ári. Tvær tegundir aðgerða verða framkvæmdar á sjúkrahúsinu: hnjáliða- og mjaðmaskiptaaðgerðir. Þá er gert ráð fyrir að sjúklingunum fylgi fjölskyldumeðlimir svo hótel verður einnig byggt á staðnum.
Finnur Snorrason, bæklunarlæknir í Noregi, er þegar starfandi hjá PrimaCare en auk þess er verið að ræða við aðra lækna, bæði íslenska og norska. Þá eru einnig í gangi viðræður við bæklunarlækna í Orkuhúsinu um samstarf.
Fleiri sveitarfélög höfðu áhuga á verkefninu, m.a. var verið að ræða við Álftanes og Garð á lokasprettinum.
Að verkefninu koma fyrst og fremst einstaklingar og fyrirtæki hér á landi auk þriggja stórra erlendra samstarfsaðila sem munu koma að fjármögnun; ameríska fyrirtækið Shiboomi, verktakafyrirtækið Skanska, sem hefur m.a. byggt fjölda sjúkrahúsa og Oppenheimer Investment Group, sem mun fyrst og fremst sjá um að afla fjár til verkefnisins.