Stærstu einstöku mannvirkjaframkvæmd Íslandssögunnar er nú lokið eftir sex ára framkvæmdir. Verklokahátíð var haldin í Fljótsdalstöð síðdegis í dag að viðstöddu fjölmenni. Um var að ræða síðasta embættisverk Friðriks Sophussonar, fráfarandi forstjóra Landsvirkjunar.
Heildarkostnaður Kárahnjúkavirkjunar er metin á um 133 milljarða króna að loknum framkvæmdum. Það er um 7% meira en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.
Við verklokahátíðina minntist sr. Lára Oddsdóttir fimm ungra manna sem létust við framkvæmdir Kárahnjúkavirkjunar. Þrír Íslendingar og tveir útlendingar létust af slysförum við vinnu sína á framkvæmdatímanum. Einn lést árið 2005, þrír létust árið 2006 og einn lést árið 2007.