Fundi fulltrúa stjórnarandstöðunnar á Alþingi og ráðherra ríkisstjórnarinnar um stöðuna í Icesave-málinu er lokið. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist eftir fundinn hafa þar lagt áherslu á að framkvæmdavaldið væri bundið af ákvörðun Alþingis um fyrirvara við ríkisábyrgð.
Bjarni sat fundinn ásamt Birki Jóni Jónssyni, varaformanni Framsóknarflokksins, og Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Hreyfingarinnar.
Bjarni sagðist á eftir vera ánægður með að ríkisstjórnin hefði fallist á þá kröfu hans að upplýsa hann og aðra fulltrúa stjórnarandstöðunnar um stöðu mála varðandi Icesave. Hann sagði, að trúnaður yrði að ríkja um málið á meðan enn stæðu yfir viðræður við viðsemjendur Íslendinga en augljóst væri, að Bretar og Hollendingar hefðu ekki fallist á alla þá fyrirvara við ríkisábyrgð á Icesave-lánum, sem Alþingi setti.