Fylgi Framsóknarflokks eykst

Forsvarsmenn Framsóknarflokksins.
Forsvarsmenn Framsóknarflokksins.

Fylgi Framsóknarflokksins hefur aukist umtalsvert undanfarinn mánuð. Mælist fylgi flokksins nú 18% í Þjóðarpúlsi Gallup, sem sagt var frá í fréttum Ríkisútvarpsins og hefur ekki verið jafn mikið frá því í júlí 2003.  Mjög hefur dregið úr vinsældum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.

Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup mælist fylgi Sjálfstæðisflokks nú 29%, Samfylkingar 26% og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs 22%. Er þetta svipaðar tölur og sáust í þjóðarpúlsi fyrir mánuði.

Fylgi Framsóknarflokksins mælist hins vegar 18% nú en var 15% fyrir mánuði. Fylgi Hreyfingarinnar, áður Borgarahreyfingarinnar, mælist nú tæp 3% en var um 6% síðast.

Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar og segjast 47% nú styðja hana.

Gallup kannaði einnig ánægju með ráðherra. Mest ánægja er með Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra en tæp 50% sögðust ánægð með störf hennar. Rúm 40% sögðust vera ánægð með störf Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, og Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra.

Um 30% sögðust ánægð með störf Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, en þegar Gallup kannaði síðast ánægju með störf ráðherra í febrúar sögðust 65% ánægð með störf Jóhönnu.

Minnst ánægja er með störf Jóns Bjarnasonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og Kristjáns L. Möller, samgönguráðherra, 12-13%.

Könnun Gallup var gerð á tímabilinu 27. ágúst til 28 september. Úrtakið var um 7200 manns og svarhlutfall var 59%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert