Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur sent samgönguráðherra bréf þar sem því er lýst yfir, að verði frumvarp til laga um rannsókn samgönguslysa, sem lagt var fram á Alþingi í sumar, að lögum muni félagið ekki geta ábyrgst framhald á samstarfi við flugmálayfirvöld varðandi flugslys og flugatvik.
„Ef ekki ríkir sátt um lagaumhverfið er varðar rannsóknir flugslysa getur það leitt til þess að dragi úr trausti og samstarfsvilja flugmanna til að tjá sig við rannsóknarnefndina, en það mun hafa stórskaðleg áhrif á framgang flugslysarannsókna og þar með almennt flugöryggi," segir í bréfinu.