Fulltrúar stjórnarandstöðunnar ræddu stöðu Icesave-málsins við ríkisstjórnina í morgun. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að á væntanlegum fundi með fjármálaráðherrum Hollands og Bretlands verði sömuleiðis farið yfir stöðu þessa máls.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að loknum þessum sama fundi að hann vildi virða trúnað en gat þó sagt að Icesave-málið væri að hans mati pólitískt vandamál og milliríkjadeila.
Sagði Bjarni, að þróunin í þessu máli væri í raun pólítísk atlaga að sjálfstæði Íslands og hneisa fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. „Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var settur á fót til að koma ríkjum sem lenda í tímabundnum erfiðleikum til aðstoðar en verður síðan einskonar innheimtustofnun vegna óskyldra mála."