Kirkjan með söfnunarátak

Þess verður minnst í kirkjum landsins að ár er liðið …
Þess verður minnst í kirkjum landsins að ár er liðið frá efnahagshruninu. mbl.is/Golli

Næstu tvo sunnudaga, þann 4. og 11. október, verður þess minnst í kirkjum að ár er liðið frá því að efnahagskreppan hófst. Beðið verður fyrir þeim sem glíma við afleiðingar hennar og þeim sem leggja sitt af mörkum til að aðstoða. Tekin verða samskot í messunum og rennur söfnunarfé til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar.

Í tilkynningu frá Biskupsstofu segir, að mikið hafi mætt á Hjálparstarfi kirkjunnar í kjölfar bankahrunsins. Umsóknum um aðstoð fjölgaði gríðarlega og nýir hópar sótt um aðstoð. Sem dæmi má nefna að í september 2008 varði Hjálparstarfið 900.000 krónum í aðstoð, mat, lyf, skólagjöld, skólavörur, tómstundagjöld og fleira. Í september 2009 var þessi upphæð um 8 milljónir króna.

Við guðsþjónustur í kirkjum landsins sunnudagana 4. og 11. október verður sérstaklega minnst þessara aðstæðna. Þar verður beðið fyrir þeim sem gíma við margvíslegar afleiðingar hrunsins, og þeim sem leggja sig fram um að hjálpa og liðsinna öðrum. Fólki verður og gefinn kostur á að leggja fram fjármuni til styrktar innanlandsaðstoðinni.

Einnig er hægt að styrkja söfnunina gegnum styrktarsíðuna www.framlag.is eða í gegnum heimasíðu starfsins  www.help.is . Þá má leggja inn  á reikning Hjálparstarfs kirkjunnar, kt. 450670-0499, reikningsnúmer  334 26 27. Öllu söfnunarfé verður varið í innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert