Samskip fá ekki bætur fyrir tilboðsgerð

Verið er að reisa Landeyjahöfn á Landeyjasandi. Ferjuna vantar enn.
Verið er að reisa Landeyjahöfn á Landeyjasandi. Ferjuna vantar enn. Ljósmynd/Emil Thor

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Samskipa um að fyrirtækið fái greiddan kostnað vegna tilboðsgerðar í útboði á nýrri Vestmannaeyjaferju. Tvö tilboð bárust en tilboð Samskipa taldist ekki uppfylla sett skilyrði.

Ríkiskaup efndi til lokaðs útboðs fyrir hönd Siglingastofnunar Íslands í að eiga, fjármagna, hanna og smíða ferju og annast rekstur og starfsemi til ferjusiglinga milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja til 15 ára.  Þátttakendur voru valdir með forvali og var fjórum fyrirtækjum boðið að gera tilboð.

Tvö tilboð bárust, annað frá Vinnslustöðinni hf. og Vestmannaeyjabæ sameigin­lega og hitt frá Samskipum. Við opnun tilboða í apríl á síðasta ári var talið að tilboð Samskipa uppfyllti ekki lágmarkskröfur útboðsgagna og var það því talið ógilt og ekki skoðað frekar. Vegna þessa var Samskipum ekki greidd þóknun fyrir tilboðsgerð en í útboðsskilmálum kom fram að verkkaupi greiddi 2 milljónir króna fyrir gerð tilboðs sem teldist fullnægjandi.

Samskip taldi ekki réttmætt af hálfu Ríkiskaupa að ógilda til­­boðið og krafðist þess að fá milljónirnar tvær greiddar. Ríkiskaup hélt því hins vegar fram að Samskip hefðu aldrei skilað gildu tilboði.

Fjölskipaður héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni, að Ríkiskaupum hafi verið rétt að líta svo á að tilboð Samskipa fullnægði ekki þeim skilyrðum sem þurftu að vera fyrir hendi til þess að það teldist gilt. Af því leiði, að ekki komi til álita að Samskipum verði greidd þóknun fyrir tilboðið.

Þess má geta, að Ríkiskaup tóku upp viðræður við Vinnslustöðina og Vestmannaeyjabæ um tilboð þeirra, sem þótti of hátt.  Eftir nokkurra vikna viðræður ákvað ríkisstjórnin að hætta við smíði Vestmannaeyjaferju í einkaframkvæmd en bjóða þess í stað út smíði ferju með hefðbundnum hætti og bjóða síðan út rekstur hennar sérstaklega.

Eftir bankahrunið sl. haust voru þær hugmyndir hins vegar einnig lagðar til hliðar og nú er útlit fyrir að nota verði núverandi Herjólf til bráðabirgða, þegar siglingar hefjast milli nýrrar Landeyjahafnar og Vestmannaeyja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert