Segir Breta og Hollendinga fjárkúga Íslendinga

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Ómar

Breska ríkisútvarpið BBC ræddi í dag við Ögmund Jónasson, fyrrum heilbrigðisráðherra, og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, um Icesave-deiluna og stöðu efnahagsmála á Íslandi. Þar segir að málin séu ríkisstjórninni ofviða, og að hún sé við það að springa.

„Okkur líkar það ekki þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið gengur erinda breskra og hollenskra stjórnvalda, og neyða okkur til að greiða [upphæð sem er] umfram það sem okkur ber skylda til þess að gera,“ segir Ögmundur í samtali við BBC.

Ögmundur segir að Íslendingar séu reiðubúnir til að greiða það sem þeim beri, en þeim líki ekki hegðun breskra og hollenskra stjórnvalda. 

„Við vildum fara með málið fyrir evrópskan dómstól til að komast að því hver okkar raunverulega skylda væri,“ segir Ögmundur og bætir við að Ísland vilji hljóta sanngjarna málsmeðferð.

Hann segir að Holland og Bretland hafi kallað eftir aðstoð AGS og farið fram á að sjóðurinn beiti sér sem einskonar lögregla gegn Íslendingum, sem eigi að fara eftir kröfum breskra og hollenskra stjórnvalda í einu og öllu. ESB beiti sér í sama tilgangi gegn Íslendingum.

Ögmundur svarar því játandi þegar fréttamaður BBC spyr hann hvort Ögmundur sé að saka Breta og Hollendinga um að kúga fé út úr Íslendingum.

Össur Skarphéðinsson segir að Hollendingar og Bretar séu mögulega, með aðgerðum sínum, að skapa aðstæður hér á landi sem leiði til stjórnarkreppu. AGS og Norðurlöndin muni ekki veita Íslendingum lán fyrr en Icesave sé út af borðinu.

Heyra má umfjöllun BBC hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka