„Þetta eru tölur og áform sem ég sé ekki að gangi upp á nokkurn hátt,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Í fjárlagafrumvarpi er áformaður sextán milljarða tekjuauki af umverfis-, orku- og auðlindasköttum. Það gæti þýtt milljarðaskattheimtu af hverju álfyrirtæki fyrir sig, þegar fram í sækir, en þau eru kaupendur að nærri þremur fjórðu allrar raforku í landinu.
Viðmælendur hafa þann fyrirvara á að hugmyndin sé óútfærð í frumvarpinu, en Ólafur Teitur Guðnason, talsmaður RioTinto Alcan í Straumsvík, segir þetta stórtæk áform sem fari fram úr öllu meðalhófi. Að óbreyttu gætu þau þurrkað út allan hagnað fyrirtækisins og gott betur. „Þessi áform um skattheimtu hljóta að setja stórkostlegt strik í reikninginn fyrir alla uppbyggingu orkufrekrar starfsemi,“ segir Vilhjálmur Egilsson.
Í fljótu bragði virðist frumvarpið hins vegar samrýmast stöðugleikasáttmálanum. Heildarhallinn sem gert sé ráð fyrir sé eftir væntingum. Vissulega sé mikill hluti af aðgerðunum, 50-60%, fólginn í hærri sköttum og margt í frumvarpinu sé óútfært. Hins vegar hafi verið miðað við það, við gerð stöðugleikasáttmálans, að 45% af vandanum verði leyst með skattahækkunum næstu þrjú árin.
Harðast yrði gengið fram í þeim fyrst, en síðan slakað á.
Heildarhalli á ríkissjóði 2010 er áætlaður 87,4 milljarðar samkvæmt frumvarpinu. Í krónum talið verða útgjöld ríkissjóðs skorin niður um 43 milljarða króna en tekjurnar auknar um 61 milljarð. Þetta eru því einhver sársaukafyllstu fjárlög í sögunni. Áætlað er að beinir skattar hækki um 37,6 milljarða. Á meðal margvíslegra hækkana er 10% hækkun bensín-, olíu- og bifreiðagjalda. Á sama tíma eiga fjárveitingar til vegaframkvæmda að lækka gríðarlega, um tólf milljarða.
Ný þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann rýrni um 10,4% á þessu ári og 11,4% á því næsta. Hann verður þá svipaður kaupmætti áranna 1999 og 2000.