Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að morgunfundurinn með fulltrúum stjórnarandstöðunnar um Icesave-málið hafi verið góður. Staðan eins og hún liggi fyrir nú hafi verið skýrð og væntanlega yrði annar fundur fljótlega.
Jóhanna sagði þó að ekkert nýtt hefði komið fram hjá stjórnarandstöðunni. Framsóknarmenn vildu taka málið upp á ný og sjálfstæðismenn vildu fara dómstólaleiðina, en sú leið væri ekki fær. Unnið væri að því að leysa málið fljótt og vel. „Okkur þokar áfram í þessu máli þó það sé ekki komin niðurstaða," sagði Jóhanna.
Að sögn Jóhönnu stendur ekki á stjórnvöldum að hafa samráð við stjórnarandstöðuna um málið á þeim nótum sem stjórnvöld telji að skili málinu áleiðis.
Eins og málið stendur nú segist Jóhanna ekki sjá annað en að málið verði að fara aftur fyrir Alþingi. Nýtt stjórnarfrumvarp hafi ekki verið sett fram heldur væru menn áfram að skiptast á skoðunum og leita leiða.