Starfshópur sem skoðar nú innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda kemur saman í dag. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kveðst treysta starfshópnum til að vinna verkið vel.
„Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar setti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra saman starfshóp sem fer yfir þessi mál,“ segir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um það hvenær hafist verður handa við innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda.
Hópurinn mun fara yfir þau álitaefni sem uppi eru og skila um þau tillögum. Formaður starfshópsins er Guðbjartur Hannesson, þingmaður Smfylkingarinnar, og hópurinn kemur saman í dag. „Störf þessa hóps hafa tafist þar sem Guðbjartur hefur ýmislegt annað á sinni könnu,“ segir Jón. Hann bendir á að málaflokkurinn sé á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis en starfshópnum séu falin þessi verkefni.
Jón segir málið þess vegna vera í farvegi, en Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, sagði á opnum fundi Samfylkingarinnar á miðvikudagskvöld að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda myndi hefjast í september 2010.
Jón segir starfshópinn hafa fengið sitt tilgreinda umboð. „Og ég treysti honum til að vinna það vel,“ segir Jón.