Fréttaskýring: Sjónum er beint að langtímaatvinnuleysi

Samdráttur hefur leitt til aukins atvinnuleysis byggingamanna.
Samdráttur hefur leitt til aukins atvinnuleysis byggingamanna. Kristinn Ingvarsson

Þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins fram til ársins 2011, sem birt var í fyrradag, dregur upp dökka mynd af stöðu atvinnulífsins í landinu. Er því spáð að atvinnuleysi verði að meðaltali í 10,6% á næsta ári en lækki í 9% árið 2011. Er þetta nokkru svartsýnni spá en áður. ASÍ gaf út spá í sumar og taldi að atvinnuleysi gæti farið í 10% á næsta ári.

Karl Sigurðsson, forstöðumaður vinnumálasviðs Vinnumálastofnunar, segir að ef spá fjármálaráðuneytisins gangi eftir megi búast við því að atvinnuleysið fari jafnvel yfir 12% þegar verst lætur í vetur. Þegar atvinnuleysið var mest síðasta vetur, í lok mars, voru 16.822 á atvinnuleyisskrá. Þá mældist atvinnuleysið 9,1%. Því gæti tala atvinnulausra farið yfir 20 þúsund næsta vetur, þegar atvinnuleysið verður mest. Að meðaltali gætu um 17.500 manns verið án atvinnu á næsta ári.

Brýtur einstaklinga niður

Ástandið lagaðist síðasta sumar en undanfarnar vikur hefur fólki verið að fjölga á skránni að nýju

Það veldur áhyggjum hve hratt hefur fjölgað í hópi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengi. Þannig höfðu 7.457, sem voru án atvinnu í ágústlok, verið atvinnulausir í meira en hálft ár, eða rúmlega helmingur allra á skránni. Þar af höfðu 799 verið án atvinnu í eitt ár eða lengur.

„Langtímaatvinnuleysi brýtur niður einstaklinginn og þeim mun lengur sem fólk er án atvinnu þeim mun erfiðara getur því reynst að vera virkt í atvinnuleitinni og að snúa aftur til starfa. Af þeim sökum eru virkar vinnumarkaðsaðgerðir til þess að styðja við og efla fólk aldrei mikilvægari en í langtímaatvinnuleysi,“ segir í hagspá ASÍ.

Að sögn Karls fjölgar mjög hratt í hópi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengi, þ.e. meira en sex mánuði. Samkvæmt spám Vinnumálastofnunar er gert ráð fyrir að um 9,500 manns verði í þessum hópi í desember og talan verði komin í 10 þúsund í janúar. Síðan verður fjölgun lítil fram á sumarið en þá gæti talan hækkað ef ekki fer að rofa til.

Karl segir að Vinnumálastofnun horfi fyrst og fremst til þessa hóps þegar verið að vinna að úrræðum og vinnumarkaðsaðgerðum. Reynt er kalla þetta fólk í viðtöl eins og hægt er. Hins vegar hafi stofnunin ekki nægilegan mannafla til að sinna þessum hópi eins og æskilegt væri.

Ef ekki tekst að útvega fólkinu vinnu er margra úrræða leitað. Meðal annars er reynt að semja við fyrirtæki. Þau ráða þá fólkið til reynslu og fá greidda upphæð sem samsvarar atvinnuleyisbótum.

Einnig er reynt að koma á fót átaksverkefnum í samráði við sveitarfélög og félagsamtök. Boðið er upp á ýmis námskeið til að viðhalda virkni fólksins, t.d. á vegum Rauða krossins og stéttarfélaganna. Miðstöðvar, sem settar hafa verið upp fyrir atvinnulausa, hafa einnig gefið góða raun. Verið er að kanna hvort hægt er að hrinda af stað fleiri slíkumverkefnum.

„Margir eru þreyttir eftir síðasta vetur og eiga erfitt með að horfa fram á annan slíkan,“ segir Karl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert