Ellefu formleg tilboð bárust þegar Ríkiskaup auglýstu eftir aðstöðu fyrir bráðabirgðafangelsi. Fram kom í fréttum Útvarpsins að meðal þeirra tilboða sem bárust, hafi verið ísbrjótur, sem ætti að sigla um með fangana innanborðs.
Haft var eftir Páli Winkel, fangelsismálastjóra, að ekkert tilboðanna 11 uppfylli þá þörf sem fyrir hendi sé um lokað öryggisfangelsi, enda hafi markmiðið verið að útvega bráðabirgðaaðstöðu. Engin ákvörðun hafi verið tekin um hvaða tilboði verði tekið en að engar líkur séu hins vegar á því að fangelsisyfirvöld ákveði að leigja ísbrjótinn.