Sumarið er liðið hjá Veðurstofunni þótt fyrsti vetrardagur sé ekki genginn í garð. Hún miðar sumarið við mánuðina júní til september. Sumarið var hlýtt, í Reykjavík er það hið 10. til 11. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga 1871 og það fjórða hlýjasta frá nýliðnum aldamótum.
Meðalhiti sumarsins í Reykjavík var 10,7 stig og er það 1,4 stig yfir meðallagi. Ekki varð alveg jafnhlýtt að tiltölu á Akureyri, meðalhiti sumarsins þar var 9,8 stig, 0,8 stigum yfir meðallagi.
Úrkoman í Reykjavík mældist 171 mm og er það um fjórðungi undir meðallagi. Þetta er þurrasta sumar frá 1988 að telja, ámóta þurrt var þó sumarið 1994. Á Akureyri mældist úrkoman 130 mm og er það í meðallagi.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 709 og er það 106 stundum umfram meðallag. Sólskinsstundir hafa alloft mælst fleiri en nú í júní til september, m.a. bæði í fyrra og hittiðfyrra. Á Akureyri mældust sólskinsstundir sumarsins 599 en það er 43 stundum umfram meðallag og munar mest um sólríkan júlí. Mikið sólarleysi var hins vegar á Akureyri í ágúst.