Anna Pála Sverrisdóttir, fráfarandi formaður Ungra jafnaðarmanna, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, lagði mikla áherslu á umhverfis- og náttúruverndarmál í ræðu sinni á landsþingi UJ í Iðnó í dag.
Kvaðst hún stolt af einarðri afstöðu UJ í þeim málum. Fyrsta verk hennar í stjórn hefði verið að keyra austur fyrir fjall upp að neðri Þjórsá til að afhenda bændum aðdáendabréf fyrir þeirra baráttu gegn átroðslu Landsvirkjunar.
Það væri baráttumál ungs fólks í Samfylkingunni að hafna frekari uppbyggingu álvera þar með talið í Helguvík og á Bakka - framtíðin geti verið meira spennandi. ,,Efnahagskreppan núna er eins og prump í eilífðinni, miðað við það sem bíður okkar, ef við bregðumst ekki strax við loftlagsbreytingum. Gerum eitthvað í þessu!" sagði Anna Pála, samkvæmt tilkynningu frá UJ.
Anna Pála sagði að Icesave málið væri lausaleikskrógi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Ljóst væri að Samfylkingin þyrfti að ganga því í föðurstað. ,,Samfylkingin axlar ábyrgðina; ætlar að klára málið og sjá um að reka þetta land."
Anna Pála gerði einnig athugasemdir við hversu mikill niðurskurður væri boðaður á Tækniþróunarsjóði, hvatti til umbóta í málefnum hælisleitenda og baráttu fyrir réttindum samkyhhneigðra á alþjóðavettvangi og sagði inngöngu í ESB mikilvægasta liðinn í uppbygginu Íslands.
Anna Pála sagðist vilja, að Íslendingar beiti sér markvisst fyrir réttindum samkynhneigðra á alþjóðavettvangi. Ísland geti verið mikilvæg fyrirmynd en hrikaleg mannréttindabrot séu framin gegn samkynhneigðum á hverjum degi um heim allan, líka í næstu nágrannalöndum Íslands. Hún sagði að þó Ísland standi framarlega í réttindamálum samkynhneigðra megi samt alltaf gera betur.
„Þannig vil ég ein hjúskaparlög strax af því að það á ekki að skipta máli hverjum maður verður ástfanginn af og vill giftast. Við höfum lesbíu sem formann Samfylkingarinnar og forsætisráðherra. Það er magnað. Verst að ég sjálf kom ekki út úr skápnum fyrr en fyrir nokkuð stuttu. Þetta hefðu getað orðið góðar fyrirsagnir: Samfylkingunni er stjórnað af lesbíum."
Í lok ræðu sinnar minntist Anna Pála á það þegar hún, fyrir ári, sagði í ræðu á landsþingi 2008 að Davíð Oddsson væri efnahagslegt gereyðingarafl. ,,Fólk tók þessu ekki alvarlega þá. En þetta urðu aldeilis áhrínisorð," sagði Anna Pála kvaðst vilja fara með fleiri áhrínisorð: ,,Bjarni Benediktsson er róttækasti feministi Íslands. Sigmundur Davíð mun í alvöru redda 2000 miljarða króna láni á 4 % vöxtum," sagði hún þá. Að ári liðnu mætti sjá hversu sannspá hún hafi orðið í þetta skiptið.