Sameining embætta, sala embættisbústaða og breytingar á starfsemi þjónustu sendiráðspresta eru meðal hugmynda sem kirkjuráð hefur í skoðun. Krafa ríkisins, samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs, er að framlög ríkisins verði skorin niður um 160 milljónir króna, auk þess sem sóknargjöld, sem ríkið innheimtir fyrir trúfélög, hafa verið skorin í tvígang á árinu.
Laun presta og biskups hafa verið lækkuð, skv. úrskurði kjararáðs. Í söfnuðum sér áhrifa skertra sóknargjalda stað en Karl Sigurbjörnsson biskup hefur lagt áherslu á að slíkt bitni ekki á innra starfi, svo sem meðal barna og unglinga.
Til fjölda ára hafa þjóðkirkjan, Tryggingastofnun og utanríkisráðuneytið í sameiningu haldið úti og fjármagnað embætti prests í Lundúnum. Samningar þar um renna út um komandi áramót og sr. Sigurður Arnarson sem þjónað hefur ytra er á heimleið. Líklegt þykir að enginn komi í hans stað. Þá er sömuleiðis óvissa um hvort embættum Íslandspresta í Gautaborg og Kaupmannahöfn verður áfram haldið úti.
Nánar er fjallað um málið í sunnudagsblaði Morgunblaðsins