Áður en fjárlagafrumvarpið og greinargerðin með því voru lögð fram á Alþingi hafði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra aldrei heyrt minnst á að gert væri ráð fyrir 16 milljarða tekjum af umhverfis-, orku- og auðlindasköttum.
Þetta staðfestir Katrín í samtali við Morgunblaðið. Ljóst er að ákvæðið var sett inn á síðustu stundu, án kynningar. Litið er á málið sem klúður í stjórnkerfinu, ekki síst að nefna einnar krónu skatt á hverja kílóvattsstund í greinargerðinni, sem gæfi sextán milljarða.
Katrín segir það hafa verið mjög óheppilegt dæmi, en það sé búið og gert. Raunhæfara væri að tala um tíu aura og sólarlagsákvæði á alla slíka skatta, t.d. eftir þrjú ár, en það verði útfært nánar. „Enginn einn iðnaður verður látinn standa undir þessum lið,“ segir hún.