Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og fjármálaráðherra Póllands, Jan Vincent Rostowski, staðfestu nú fyrir stundu samning um lán frá Póllandi til Íslands, sem er hluti af lánaprógrammi með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það gerðu þeir í Istanbul í Tyrklandi, þar sem ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fer fram á morgun og þriðjudag.
Lánið sem Pólverjar ætla að veita Íslendingum nemur 200 milljónum dollara, eða um 25 milljörðum króna.
Að sögn Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns ráðherra, fór vel á með ráðherrunum við undirritun samningsins og var pólski ráðherrann vel inni í efnahagsmálum á Íslandi. Við tilefnið sagði Steingrímur að sérstaklega yrði að þakka fyrir að þetta lán væri ekki bundið neinum sérstökum skilyrðum, öðrum en þeim að endurskoðun efnahagsáætlunarinnar með AGS færi fram. Átti hann þar meðal annars við að lánið væri ekki bundið skilyrðum um lyktir Icesave- málsins eða inngöngu í Evrópusambandið.
Að sögn Indriða er ráðgert að Steingrímur fundi með aðstoðarfjármálaráðherra Rússlands, Dimitrí Pankin, síðar í dag um mögulegar lánveitingar Rússa til Íslendinga.
Lánið sem er til 12 ára, með fimm
ára afborgunarlausum tíma, leggur Íslandi til fjármögnun til langs tíma og
sýnir um leið samstöðu Pólverja með Íslendingum og staðfastan stuðning þeirra
við Ísland í þeim erfiðleikum í efnahags- og fjármálum sem nú er við að glíma, segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.
Lánið verður borgað út í þremur jöfnum hlutagreiðslum sem eru tengdar annarri, þriðju og fjórðu endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands með AGS, og er hver greiðsla háð því að viðkomandi endurskoðun hafi verið samþykkt. Lánið verður veitt og borgað út í pólskum slotum (PLN).
Samhliða útborgun lánsfjárins mun pólska fjármálaráðuneytið gefa út pólsk ríkisskuldabréf í fjórum tilgreindum skuldabréfaflokkum í sömu fjárhæð og útborgun lánsins nemur hverju sinni. Íslenska ríkið skuldbindur sig samkvæmt lánssamningnum til þess að verja útborguðu lánsfé til kaupa á þessum pólsku ríkisskuldabréfum.
Hreinn kostnaður af lántökunni mun eingöngu verða vaxtaálag sem greiða skal samtímis vaxtagreiðslum af pólsku ríkisskuldabréfunum. Vaxtaálagið verður 2% á ári fram til 31. desember 2015 en 1,3% á ári þar eftir. Lánið verður endurgreitt í fjórum afborgunum á lokagjalddögum pólsku ríkisskuldabréfanna, í oktkóber 2015, 2017 og 2019 og í september 2022.