„Það er mjög mikilvægt að þetta sé í höfn,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, um nýundirskrifaðan lánasamning við Pólverja. Hann segir að nú sjáist fyrir endann á fjármögnun þeirrar efnahagsáætlunar sem stjórnvöld hafa að undanförnu unnið að í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Lánið nemur 25 milljörðum íslenskra króna og segir Steingrímur það veitt án nokkurra skilyrða, öðru en því að endurskoðun Aljóðagjaldeyrissjóðsins gangi eðlilega fyrir sig.
Ný staða fyrir Pólland
„Það var sérstaklega gaman að eiga í þessum samskiptum við Pólverja, því þeir voru svo jákvæðir og hjálplegir og lögðu upp úr því að þeir væru með þessu að leggja sitt af mörkum. Þetta er að mörgu leyti ný staða fyrir Pólverja, sem sjálfir hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika á undanförnum áratugum og þegið mikla aðstoð. Núna má segja að þeir séu komnir hinum megin við borðið,“ segir Steingrímur.
Fjármálaráðherra hittir aðstoðarfjármálaráðherra Rússlands rétt fyrir þrjú að íslenskum tíma, til að ræða um mögulegt lán. „Það er talsvert lengra í land þar. Í raun eru eiginlegar samningaviðræður ekki hafnar, heldur bara undirbúningur og þreifingar,“ segir Steingrímur.
Ræddi við Darling
Hann segir að markmiðið sé að koma á þríliða fundi með Hollendingum og Bretum í framhaldinu, en óljóst hvort af slíkum fundi verði. Hann hitti þó Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, og átti við hann óformlegt spjall fyrr í dag.
„Þar var bara staðfestur sameiginlegur áhugi á því að reyna að halda áfram að leita lausna, og hann var sammála því að þetta væri mál sem endilega þyrfti að fara að leysa. Hann virtist vera sæmilega vel upplýstur um málið og stöðu þess, og sagðist auðvitað fagna því ef hreyfing kæmist á það mál á nýjan leik.“
Þá hittir Steingrímur fjármálaráðherra Hollands á morgun.