Samþykktu Icesave blindandi

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. mbl.is/Ómar

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður VG, sagði í Silfri Egils í dag, að ríkisstjórn Íslendinga hefði samþykkt Icesave-samningana blindandi, án þess að hafa séð þá „fyrir utan einn mann sem heitir Ögmundur Jónasson og hefur nú verið gerður brottrækur úr ríkisstjórn." Það sama hefðu þingflokkar stjórnarflokkanna gert að undanskildum nokkrum þingmönnum VG.

„Það er gríðarlegur missir að Ögmundi Jónassyni í ríkisstjórn Íslands," sagði Guðfríður Lilja. „Ég hef stutt þessa ríkisstjórn af fúsum og frjálsum vilja og geri enn. Ríkisstjórnin veikist hins vegar gríðarlega sem vinstristjórn... Það sem ég held að ríkisstjórnin ætti að gera núna er að endurskoða allt sem hún hefur gert og bjóða Ögmundi Jónassyni aftur að borðinu fyrir Ísland."

Þegar Guðfríður Lilja var spurð hvort hún væri ekki í raun að segja að VG væri klofinn flokkur og hluti hans væri á leið út úr ríkisstjórninni svaraði hún neitandi en sagði, að ríkisstjórnin yrði að taka sig á með opnari og lýðræðislegri vinnubrögð að leiðarljósi.

Guðfríður Lilja sagði að niðurstaða í Icesave-samningum yrði að fá að koma fyrir Alþingi og fá þar opna og lýðræðislega meðferð. Fyrir því hefði Ögmundur beitt sér í ríkisstjórninni en þar hefði verið krafa um að menn hefðu eina skoðun á málinu.

Þá gagnrýndi hún þær yfirlýsingar forsvarsmanna stjórnarinnar að það yrði að liggja fyrir að meirihluti væri fyrir málinu á Alþingi ef leggja ætti niðurstöðu Icesave-samninga fyrir þingið.  „Alþingi á að koma að þessu máli óhlekkjað," sagði Guðfríður Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka