Stórlaxarnir munu ekki allir sleppa

Einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli árið 2007.
Einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli árið 2007.

Þorvaldur Gylfason, prófessor, sagði í Silfri Egils í Sjónvarpinu í dag, að hann væri þeirrar skoðunar að stórlaxarnir, sem tengjast íslenska fjármálahruninu, muni ekki allir sleppa að þessu sinni.

Spurningu um hvort hann teldi að einhverjir muni hljóta fangelsisdóm í kjölfar rannsóknar á hruninu svaraði Þorvaldur játandi. Einnig væri líklegt að einhverjir muni hljóta dóma í útlöndum.

„Það er alveg nauðsynlegt vegna þess að bankahrun, sem kostar erlenda viðskiptamenn íslenskra manna fjárhæð, sem hleypur á þrefaldri eða fjórfaldri, hugsanlega fimmfaldri landsframleiðslu Íslendinga, er ekki bara einkamál Íslendinga. Íslendingar skulda ekki bara sjálfum sér heldur  einnig umheiminum fulla og heiðarlega greinargerð um það sem hér fór úrskeiðis," sagði Þorvaldur.

Hann líkti rannsóknum á fjármálaslysum við rannsókn á flugslysum vegna þess að í hlut ætti oft fólk frá mörgum þjóðum. Hann sagði að grannt væri fylgst með íslensku rannsókninni víða um heim og í alþjóðastofnunum.

Þorvaldur sagði, að það væri algeng skoðun, að bankar hefðu reynt að kaupa sér frið með því að vingast við stjórnmálamenn, m.a. með því að veita þeim kúlulán. Vísaði hann til þess að fyrrverandi seðlabankastjóri hefði furðað sig á að enginn hefði rannsakað á annað hundrað eignarhaldsfélög.    

„Hverjir þáðu boðsferðirnar  í einkaþoturnar allar þegar verið var að fljúga í boðsferðirnar á knattspyrnuleiki í London frá Reykjavíkurflugvelli? Farþegalistarnir eru opinber gögn. Ég furða mig á að það mál skuli ekki hafa verið tekið út fyrir sviga og að það sé ekki fyrir löngu búið að kunngera það," sagði Þorvaldur. Hann sagðist gera ráð fyrir að farþegalistarnir yrðu birtir sem hluti af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert