Rannsóknarnefnd Alþingis hefur óskað eftir og fengið afrit af bréfum, sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, skrifaði í þágu íslenskra fjármálastofnana eða fyrirsvarsmanna þeirra á árunum 2000-2008. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að forsetinn skrifaði m.a. Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og leiðtogum Kína slík bréf.
Fréttablaðið segir að þeir Clinton, Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Hamad Bin Khalifa Al Thani, emír af Katar, Hu Jintao, forseti Kína, Jiang Zemin, fyrrverandi forseti Kína, og Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, séu meðal þeirra sem fengu bréf frá forsetanum, ýmist rituð til stuðnings íslenskum fjármálastofnunum eða þá að vikið er að bankarekstrinum í efni bréfanna.
Blaðið hefur fengið aðgang að bréfaskiptum forsetaembættisins og rannsóknarnefndar Alþingis en ekki að bréfum forsetans. Fram kemur að um er að ræða 17 bréf, þar sem vikið er að starfsemi íslenskra banka í tilteknu landi eða þeirra getið í framhjáhlaupi um leið og fjallað er um önnur efnisatriði.