Raunútgjöld heimila vegna heilbrigðismála jukust um 29% frá 1998 til 2006. Stærstu útgjaldaliðir árið 2006 voru lyf og tannlæknisþjónusta. Kostnaðarbyrðin var þyngst meðal kvenna, yngra og eldra fólks, einhleypra og fráskilinna, minni heimila, fólks utan vinnumarkaðar og atvinnulausra, fólks með litla menntun og lágar tekjur, langveikra og öryrkja.
Þetta kemur fram í grein, sem Rúnar Vilhjálmsson, félagsfræðingur skrifar í nýjasta Læknablaðsins. Segir hann að samanburður á kostnaðarbyrði 1998-2006 sýni versnandi stöðu ungs fólks, skólafólks, atvinnulausra og fólks með minnsta menntun, en batnandi stöðu eldra fólks, ekkjufólks og barnaforeldra.
Rúnar segir, að verulegur munur er á útgjöldum og útgjaldabyrði vegna heilbrigðisþjónustu eftir hópum. Endurskoða þyrfti tryggingavernd í heilbrigðiskerfinu og huga sérstaklega að öryrkjum, fólki utan vinnumarkaðar, lágtekjufólki og ungu fólki.