Hétu öll stuðningi

Þingmenn VG á fundi skömmu eftir kosningar.
Þingmenn VG á fundi skömmu eftir kosningar. Árni Sæberg

Formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, segist aðspurður ekki trúa því að þingmenn flokksins muni hætta stuðningi við ríkisstjórnina núna, slík átök séu ekki það sem þjóðin þurfi á að halda. Rætt var við hann fyrir þar sem hann var staddur í Istanbúl.

Steingrimur sagðist ekki hafa heyrt að þau Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefðu neitað að taka í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld fyrir hönd VG og borið við óánægju með stefnuna í Icesave-málunum.

„Ég bara geng út frá því sem fólk hefur sagt bæði opinberlega og á okkar fundum. Þegar við endurskipulögðum ríkisstjórnina tóku allir með tölu það skýrt fram að þeir vildu að hún héldi áfram og væru eindregnir stuðningsmenn hennar. Þetta var sagt á þingflokksfundi þar sem verið var að fara yfir stöðu mála þannig að ég geng út frá að slíkt gildi þar til annað verður ákveðið.

Í öðru lagi var alveg skýrt að það var ákveðið að halda áfram að láta á það reyna hvort hægt væri að lenda þessu Icesave-máli, að sjálfsögðu með það leiðarljósi að svo kæmi það til þingflokksins og skoðað yrði hverju tækist að ná fram. Það var samstaða um það hvað út af stæði og á hverju þyrftu að fást lagfæringar.

Og í þriðja lagi voru allir sammála um að tala sig saman og ræða málin inn á við en ekki bera þau á torg í fjölmiðlum. Ég vék af landi mjög rólegur með það."

Steingrímur var spurður um væntanlegt lán frá Rússum. Hann sagði að samkomulag hefði verið um að Rússar myndu segja frá málalokum í yfirlýsingu og hann hefði átt von á slíkri yfirlýsingu í kvöld en gæti ekki tjáð sig að öðru leyti um málið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert