Sviptingar hafa verið hjá útgerðum uppsjávarskipa undanfarin ár. Makríll sem áður var flækingur á Íslandsmiðum er nú orðinn einn mesti nytjafiskurinn og gulldeplan bjargaði miklu í vetur. Veiðar á kolmunna og norsk-íslenskri síld hafa gengið vel í ár, en það sama verður ekki sagt um loðnu og sýkta íslenska sumargotssíld.
Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða nam í fyrra tæpum 35 milljörðum, en tæplega 22 milljörðum árið 2007. Af loðnu veiddust um 307 þúsund tonn árið 2007, um 149 þúsund í fyrra og aðeins 15 þúsund tonn síðasta vetur. Útflutningsverðmæti loðnuafurða hefur gjarnan verið í kringum tólf milljarða á ári, en þegar best hefur látið hefur loðnan gefið um 20 milljarða.
Í ár hafa veiðst rúmlega 116 þúsund tonn af makríl og svipað af kolmunna. Til loka ágústmánaðar var búið að veiða 186.300 tonn af norsk-íslenskri síld og voru júlí og ágúst sérlega gjöfulir. Norsk íslenska síldin hefur í ár nánast öll verið veidd í íslenskri lögsögu og meira verið unnið til manneldis í landi en áður.