Ríkisstjórnin gerir allt öfugt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í ræðustól Alþingis.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í ræðustól Alþingis. mbl.is/Heiðar

Ríkisstjórnin gerir nánast allt öfugt við það sem hún ætti að gera, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins á Alþingi í kvöld. Sagði hann að rökleysa væri í stefnunni, sem gengi út á að til þess að vera þjóð á meðal þjóða, þyrftu Íslendingar að láta erlent vald vaða yfir sig í Icesave málinu.

Sagði hann að ef litið væri á íslenska hagkerfið eins og fyrirtæki gengi það bara nokkuð vel. Tekjur væru meiri en útgjöld. Gallinn væri hins vegar skuldirnar og vextirnir af þeim. Ríkisstjórnin tæki hins vegar á þeim skuldavanda með því að reyna að auka skuldirnar enn frekar. Vísaði hann þar til Icesave samninganna og lántökunnar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Hann spurði til hvers lánin frá AGS væru eiginlega. ,,Þau eru til þess að styrkja gengi krónunnar með illskiljanlegum hætti." Ekki standi til að nota lánsféð, bara eiga það og borga af því vexti. Ýmsum renni hins vegar í grun að tilgangurinn sé sá að ríkið muni kaupa upp eigin gjaldmiðil. Á því hagnist helst erlendir fjárfestar sem eigi eignir í krónum og vilji selja þær eignir á sem hagstæðustu gengi.

Sagði hann að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði aldrei náð yfirlýstum markmiðum sínum í þeim löndum sem hann hefur aðstoðað. Ríkisstjórnin sé að berjast fyrir því að fá að taka lán, til þess að geta borgað skuld sem Íslendingar skuldi alls ekki og svo eigi að taka enn meiri lán til þess að halda uppi gengi gjaldmiðilsins, sem ekki sé hægt.

Sigmundur Davíð gagnrýndi einnig harðlega hátt vaxtastig Seðlabankans og niðurskurðinn í fjárlagafrumvarpinu, sem hann sagði eyðileggjandi og án framtíðarsýnar. Fyrirhugaðar skattahækkanir sagði hann það vanhugsaðasta af því öllu.

Þá gagnrýndi hann stjórnina fyrir að bregðast við gagnrýni með persónulegum árásum á fólk og gagnrýndi hann fréttaflutning Ríkisútvarpsins í kvöld, þar sem sagt var frá málum tengdum Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og Icesave samningnum. ,,Svona vinnur þessi stjórn. Spuni og ofbeldi í stað rökréttrar umræðu," sagði Sigmundur Davíð. Sagði hann kaldhæðnislegt að vinstristjórnin væri búin að leiða Íslendinga undir frjálshyggju AGS og væri að hjálpa ESB við að horfast ekki í augu við gallana á regluverki þess.

Sagði hann mikilvægt að Íslendingar læri af reynslunni í þetta skiptið, enda geti þeir að öðrum kosti ekki verið sáttir við sjálfa sig þegar uppi verður staðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert