Óvissa einkennir stöðu uppsjávarflotans. Finnst loðnan? Braggast síldin? Gefur gulldeplan aftur færi á sér? Til að reyna að svara spurningum sem þessum er framundan aukin samvinna fiskifræðinga og útvegsins.
Samvinna Hafrannsóknastofnunar, útgerða, sjómanna og ráðuneytis er ekki ný af nálinni. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi í loðnu og síld síðustu fimm árin. Einmitt þessir tveir stofnar, þ.e. íslenska sumargotssíldin og loðnan, hafa átt undir högg að sækja og sérstök áhersla verður á næstunni lögð á þessa stofna, auk þess sem makríllinn bætist nú við.
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að þetta samstarf hafi skipt sköpum fyrir báða aðila, tekist hafi að ná mælingum og hefja veiðar fyrr en ella. Verulegur kostnaður hafi fylgt þessu fyrir sjómenn og útgerðir og þó leyfi hafi á stundum verið gefin til einhverra veiða samhliða leit þá sé það aðeins upp í brot af kostnaði.
Makrílleit og gulldepluveiðar
Fjögur skip halda til makrílleitar á mánudag í samvinnu Hafrannsóknastofnunar og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Leitað verður fyrir Suðausturlandi og er megintilgangurinn að afla upplýsinga um hversu lengi makríl er að finna í íslenskri lögsögu og fylgjast með gönguleiðum hans þegar hann dregur sig til baka á vetursetustöðvar í Norðursjó og norðan og vestan Bretlandseyja. Komi í ljós að makríll er enn í lögsögunni verða þær upplýsingar eflaust kynntar í viðræðum við svokallaðar strandþjóðir um makrílveiðar í Norður-Atlantshafi á fundum síðar í haust.Skipin sem taka þátt í leitinni eru Ingunn sem fer frá Vopnafirði, Hoffellið frá Fáskrúðsfirði og Sighvatur Bjarnason og Kap frá Vestmannaeyjum verða saman með eitt troll. Hafrannsóknastofnunin skipuleggur leitina og hefur ákveðið 30 togstöðvar. Ef makríll finnst á svæðinu er þörf á endurtekningu um sjö til tíu dögum eftir fyrri yfirferð.
Búist er við að fyrstu skipin haldi í vikunni til leitar og veiða á gulldeplu, sem var mikil búbót fyrir uppsjávarflotann á síðasta vetri. Þá veiddist lítilræði af fiskinum í desember, en eftir að veiðarfæri höfðu verið þróuð byrjuðu veiðar fyrir alvöru í janúarmánuði.
Skipstjórnarmenn telja að mögulegt sé að byrja veiðar á gulldeplu í októbermánuði, en megingangan komi inn á miðin suðaustur af landinu er kemur fram í nóvember. Gulldeplan gangi síðan í vesturátt, en göngur séu breytilegar eftir árum. Hafrannsóknastofnun mun fylgjast með leit og veiðum skipanna sem fyrst halda á gulldeplumið og hyggst þá mæla stofninn eftir því sem upplýsingar berast.
Það er á áætlun hjá Hafrannsóknastofnun að meta íslensku sumargotssíldina í nóvember með tilliti til stofnstærðar og sýkingar í stofninum. Hugsanlegt er að síldveiðiskip fari fyrr til síldarleitar í samvinnu við Hafrannsóknastofnun. Ekki hefur verið gefinn út kvóti á íslensku síldina.
Mikil óvissa með loðnuna
Loðnan var til skamms tíma mikilvægust uppsjávartegunda, en síðustu tvær vertíðir hefur lítill kvóti verið gefinn út. Það á einnig við um komandi vertíð. Mikil óvissa er um veiðistofn loðnu og miðað við mælingar á ungloðnu í fyrra eru ekki miklar væntingar til veiða í vetur.Hafrannsóknastofnun fer í fjögurra vikna leiðangur um miðjan nóvember þar sem ungloðna verður meðal annars mæld. Nú er unnið að því að loðnuskip, í samvinnu við Hafró, fari til leitar í byrjun í janúar.