Segja tillögur ráðherra stríðsyfirlýsingu

Útifundur Hagsmunasamtök Heimillana á Austurvelli
Útifundur Hagsmunasamtök Heimillana á Austurvelli hag / Haraldur Guðjónsson

Hagsmunasamtök heimilanna telja að tillögur félagsmálaráðherra, Árna Páls Árnasonar um aðgerðir til leiðréttingar greiðslubyrði og aðlögun skulda heimilanna vera ófullnægjandi.  Segja þau tillögur ráðherra vera stríðyfirlýsingu ekki sáttargerð og með þeim staðfesti ráðherra að tvenn lög gildi í landinu.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna.

„Samtökin virða þann vilja ráðherra að stuðla að tímabundinni almennri lækkun greiðslubyrði lána, en telja að ólíklegt sé að fyrirheit um mögulega leiðréttingu/afskrift í lok lánstímans standist.  Tenging greiðslubyrði við greiðslujöfnunarvísitölu er lymskuleg aðferð til að tryggja að lánveitendur tapi engu.  Það sem meira er, heildargreiðslubyrði mun aukast umtalsvert. 

Samtökin sjá ekki að tillögur ráðherra uppfylli á nokkurn hátt, þau markmið sem sett eru fram í kynningarefni ráðherrans, svo sem að leiðrétta misgengi lána, launa, verðlags og gengis krónunnar, að eyða óvissu, að gæta jafnræðis, hófsemi og sanngirni og að stuðla að sátt í samfélaginu.  Tillögurnar eru stríðsyfirlýsing, ekki sáttargerð.

Samtökin telja, að tillögur ráðherra séu staðfesting á ótta samtakanna, sem birtist í yfirlýsingu í febrúar, að heimilum landsins sé ætlað að fjármagna nýtt fjármálakerfi með eignum sínum.

Samtökin telja, að með tillögunum hafi ráðherra staðfest að í landinu gildi tvenn lög.  Lög fjármagnseigenda og fjármálafyrirtækja og lög skuldara.  Þorgeir Ljósvetningagoði áttaði sig á því fyrir 1009 árum, að slíkt væri ekki vænlegt til árangurs, er hann sagði:  „Ef vér slítum í sundur lögin, slítum vér og í sundur friðinn."  Hér verða að gilda ein lög, sem gæta sanngirnis, réttlætis, jafnræðis og hófsemi.

Að mati samtakanna koma tillögur ráðherra á engan hátt til móts við húsnæðiseigendur, þegar kemur að því að létta á þeirri stöðu sem er á fasteignamarkaði.  Meðan höfuðstóll lána er ekki leiðréttur og óvissa ríkir um hvort nokkuð komi til slíkrar leiðréttingar, þá er erfitt að eiga í viðskiptum með fasteignir.  Án leiðréttinga á höfuðstól veðlána er geta fólks til fjárfestinga skert verulega og sá hópur stækkar ört sem er með yfirveðsettar eignir, sökum þess að verð eigna fellur og höfuðstóll lána hækkar stöðugt.  Fólk getur hvorki stækkað eða minnkað við sig.  Það er bundið í nokkurs konar átthagafjötra.  Allt vegna þess að lánveitendur skulu fá sín stökkbreyttu lán að fullu endurgreidd.  Tímabundin aukin greiðslugeta mun innan fárra ára hverfa með hækkun greiðslubyrði tengdri greiðslujöfnunarvísitölu.  Hvorki er tekið á rót vandans né höfðað til ábyrgðar fjármálastofnana á stöðugleika.  Samtökin sjá ekki hvernig tillögur ráðherra geti orðið grunnur að viðreisn efnahagslífsins.

Hagsmunasamtök heimilanna skora á félagsmálaráðherra og stjórnendur fjármálafyrirtækja að setjast niður með fulltrúum neytenda og ræða alvöru lausn á skulda- og greiðsluvanda heimilanna.  Samtökin vilja minna á, að heimilin eru ekki óvinurinn.  Hagsmunir aðila fara saman.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa í 8 mánuði leitað eftir samstarfi við fjármálafyrirtæki og stjórnvöld um lausn á stöðu heimilanna.  Já, samtökin auglýsa eftir samstarfi, ekki kynningarfundum.  Í 8 mánuði hafa samtökin verið hunsuð.  Nú hefur það leitt til þess að greiðsluverkfall hófst 1. október og stendur að óbreyttu til 15. október.  Höfum hugfast að heimilin eru viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna og fyrirtækjunum ætti að vera í mun að viðhalda viðskiptasambandinu.  Ef það er ekki næg ástæða til að setjast niður og ræða saman um lausnir, þá vita samtökin ekki hvað þarf til.  Dugi yfirstandandi greiðsluverkfall ekki til að ná fram réttlæti, sanngirni og jafnrétti, eins og ráðherra ber sér á brjósti með, þá verða frekari aðgerðir boðaðar.

Heimilin í landinu eru ekki botnlaus sjálftökusjóður fyrir fjármálafyrirtæki og stjórnvöld.  Þeim ber ekki að borga fyrir glannaskap fjármálafyrirtækjanna eða mistök í hagstjórn og þau munu ekki gera það."


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert