Segja tillögur ráðherra stríðsyfirlýsingu

Útifundur Hagsmunasamtök Heimillana á Austurvelli
Útifundur Hagsmunasamtök Heimillana á Austurvelli hag / Haraldur Guðjónsson

Hags­muna­sam­tök heim­il­anna telja að til­lög­ur fé­lags­málaráðherra, Árna Páls Árna­son­ar um aðgerðir til leiðrétt­ing­ar greiðslu­byrði og aðlög­un skulda heim­il­anna vera ófull­nægj­andi.  Segja þau til­lög­ur ráðherra vera stríðyf­ir­lýs­ingu ekki sátt­ar­gerð og með þeim staðfesti ráðherra að tvenn lög gildi í land­inu.  Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Hags­muna­sam­tök­um heim­il­anna.

„Sam­tök­in virða þann vilja ráðherra að stuðla að tíma­bund­inni al­mennri lækk­un greiðslu­byrði lána, en telja að ólík­legt sé að fyr­ir­heit um mögu­lega leiðrétt­ingu/​af­skrift í lok láns­tím­ans stand­ist.  Teng­ing greiðslu­byrði við greiðslu­jöfn­un­ar­vísi­tölu er lymsku­leg aðferð til að tryggja að lán­veit­end­ur tapi engu.  Það sem meira er, heild­ar­greiðslu­byrði mun aukast um­tals­vert. 

Sam­tök­in sjá ekki að til­lög­ur ráðherra upp­fylli á nokk­urn hátt, þau mark­mið sem sett eru fram í kynn­ing­ar­efni ráðherr­ans, svo sem að leiðrétta mis­gengi lána, launa, verðlags og geng­is krón­unn­ar, að eyða óvissu, að gæta jafn­ræðis, hóf­semi og sann­girni og að stuðla að sátt í sam­fé­lag­inu.  Til­lög­urn­ar eru stríðsyf­ir­lýs­ing, ekki sátt­ar­gerð.

Sam­tök­in telja, að til­lög­ur ráðherra séu staðfest­ing á ótta sam­tak­anna, sem birt­ist í yf­ir­lýs­ingu í fe­brú­ar, að heim­il­um lands­ins sé ætlað að fjár­magna nýtt fjár­mála­kerfi með eign­um sín­um.

Sam­tök­in telja, að með til­lög­un­um hafi ráðherra staðfest að í land­inu gildi tvenn lög.  Lög fjár­magnseig­enda og fjár­mála­fyr­ir­tækja og lög skuld­ara.  Þor­geir Ljósvetn­ingagoði áttaði sig á því fyr­ir 1009 árum, að slíkt væri ekki væn­legt til ár­ang­urs, er hann sagði:  „Ef vér slít­um í sund­ur lög­in, slít­um vér og í sund­ur friðinn."  Hér verða að gilda ein lög, sem gæta sann­girn­is, rétt­læt­is, jafn­ræðis og hóf­semi.

Að mati sam­tak­anna koma til­lög­ur ráðherra á eng­an hátt til móts við hús­næðiseig­end­ur, þegar kem­ur að því að létta á þeirri stöðu sem er á fast­eigna­markaði.  Meðan höfuðstóll lána er ekki leiðrétt­ur og óvissa rík­ir um hvort nokkuð komi til slíkr­ar leiðrétt­ing­ar, þá er erfitt að eiga í viðskipt­um með fast­eign­ir.  Án leiðrétt­inga á höfuðstól veðlána er geta fólks til fjár­fest­inga skert veru­lega og sá hóp­ur stækk­ar ört sem er með yf­ir­veðsett­ar eign­ir, sök­um þess að verð eigna fell­ur og höfuðstóll lána hækk­ar stöðugt.  Fólk get­ur hvorki stækkað eða minnkað við sig.  Það er bundið í nokk­urs kon­ar átt­haga­fjötra.  Allt vegna þess að lán­veit­end­ur skulu fá sín stökk­breyttu lán að fullu end­ur­greidd.  Tíma­bund­in auk­in greiðslu­geta mun inn­an fárra ára hverfa með hækk­un greiðslu­byrði tengdri greiðslu­jöfn­un­ar­vísi­tölu.  Hvorki er tekið á rót vand­ans né höfðað til ábyrgðar fjár­mála­stofn­ana á stöðug­leika.  Sam­tök­in sjá ekki hvernig til­lög­ur ráðherra geti orðið grunn­ur að viðreisn efna­hags­lífs­ins.

Hags­muna­sam­tök heim­il­anna skora á fé­lags­málaráðherra og stjórn­end­ur fjár­mála­fyr­ir­tækja að setj­ast niður með full­trú­um neyt­enda og ræða al­vöru lausn á skulda- og greiðslu­vanda heim­il­anna.  Sam­tök­in vilja minna á, að heim­il­in eru ekki óvin­ur­inn.  Hags­mun­ir aðila fara sam­an.

Hags­muna­sam­tök heim­il­anna hafa í 8 mánuði leitað eft­ir sam­starfi við fjár­mála­fyr­ir­tæki og stjórn­völd um lausn á stöðu heim­il­anna.  Já, sam­tök­in aug­lýsa eft­ir sam­starfi, ekki kynn­ing­ar­fund­um.  Í 8 mánuði hafa sam­tök­in verið hunsuð.  Nú hef­ur það leitt til þess að greiðslu­verk­fall hófst 1. októ­ber og stend­ur að óbreyttu til 15. októ­ber.  Höf­um hug­fast að heim­il­in eru viðskipta­vin­ir fjár­mála­fyr­ir­tækj­anna og fyr­ir­tækj­un­um ætti að vera í mun að viðhalda viðskipta­sam­band­inu.  Ef það er ekki næg ástæða til að setj­ast niður og ræða sam­an um lausn­ir, þá vita sam­tök­in ekki hvað þarf til.  Dugi yf­ir­stand­andi greiðslu­verk­fall ekki til að ná fram rétt­læti, sann­girni og jafn­rétti, eins og ráðherra ber sér á brjósti með, þá verða frek­ari aðgerðir boðaðar.

Heim­il­in í land­inu eru ekki botn­laus sjálf­töku­sjóður fyr­ir fjár­mála­fyr­ir­tæki og stjórn­völd.  Þeim ber ekki að borga fyr­ir glanna­skap fjár­mála­fyr­ir­tækj­anna eða mis­tök í hag­stjórn og þau munu ekki gera það."


mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka