Steingrímur J.: Gagnlegur fundur

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að fundur hans og Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands í morgun hafi verið gagnlegur og þeir farið yfir stöðu mála. Segir hann gagnkvæman vilja fyrir því að halda áfram við að leita að lausn Icesave-deilunnar enda finni allir það hve óþægilegar tafirnar á afgreiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru.

Málið sé að verða allt hið vandræðalegasta og ekki verði unað við það mikið lengur, segir Steingrímur.

Steingrímur segir að ákveðnar hugmyndir um lausn mála hafi verið ræddar á fundinum án þess að vilja greinar nánar frá þeim. En að mikilvægt hafi verið að eiga fundinn með Bos í morgun og eins að hafa rætt stuttlega við Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands um helgina. 

Steingrímur sagði í samtali við mbl.is að hann muni hitta Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á morgun en fjármálaráðherra er staddur á ársfundi AGS sem fram fer í Istanbúl  í Tyrklandi, Hann fundar einnig með portúgölsku sendinefndinni á morgun.

Aðspurður um stöðu viðræðna við Rússa um lán til Íslands segir Steingrímur að hann eigi von á því að rússnesk stjórnvöld greini frá því með formlegum hætti síðdegis hver niðurstaðan var af viðræðum sendinefnda ríkjanna í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert