Á því ári sem í dag er liðið frá því að Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, ákallaði máttarvöldin til blessunar þjóðinni, hafa afleiðingar hamfaranna blasað við á hverjum degi.
Á sama tíma og atvinnuleysi hefur aukist jafnt og þétt hefur skuldabyrði einstaklinga og ríkisins vaxið, kaupmáttur hefur rýrnað og kjör almennings hríðversnað. Afleiðingarnar eru megn óánægja sem meðal annars gat af sér búsáhaldabyltinguna margfrægu í byrjun ársins.
Á meðan fyrirtæki rifa seglin og fella þau jafnvel alveg hafa hjálparstofnanir aldrei haft meira að gera. Prestar og sálfræðingar greina frá auknum fjölskyldu- og hjónabandserfiðleikum og margir hafa áhyggjur af börnunum.