Umferðin í höfuðborginni gekk vandræðalaust fyrir sig í morgun að sögn lögreglunnar. Ekkert umferðaróhapp hefur verið skráð og ljóst að fólk fer með gát. Óhætt er að segja að margir ráku upp stór augu í gærkvöldi þegar byrjaði að snjóa og fjöldi ökumanna vanbúinn fyrir veturinn. Það kemur því ekki á óvart að mikið er að gera á hjólbarðaverkstæðum.
„Það var hressandi í morgun þegar við mættum, við neitum því ekki,“ segir Guðjón Erlendsson hjá hjólbarðaþjónustu N1. „Það er búið að vera gott í morgun,“ segir hann en þegar haft var samband við Guðjón var biðtíminn 1 klukkustund og biðu 10-11 bílar út á plani, auk þeirra sem höfðu pantað tíma.
Reynt var að hafa samband við önnur hjólbarðaverkstæði en þar var ítrekað á tali. Starfsmenn þar munu því hafa í nógu að snúast í dag og næstu daga.