„Þetta var mjög gagnlegur fundur,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sem átti í dag fund með Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).
„Þar mæta þau sjónarmið okkar miklum skilningi að við getum ekki búið við það áfram að okkar mál tefjist og tefjist. Það er einfaldlega staðfest að við höfum gert það sem til okkar heyrði. Það er viðurkennt af sjóðnum og þar af leiðandi finnst þeim mjög óþægilegt að þetta skuli hafa gengið svona til. Ég held að það sé orðinn mikill þrýstingur á þá að okkar mál komist áfram.“
Aðspurður sagði Steingrímur að ekki hafi verið gefið neitt upp um hvenær vænta má næsta áfanga láns frá AGS. Hann sagði enn standa við það sama, að endurskoðunin komist á dagskrá og að hún komist í gegnum ráðið.
„Það þarf auðvitað að vera fullnægjandi stuðningur við hana í stjórn sjóðsins. Vissulega skilur maður að því leyti vanda framkvæmdastjórans. Hann þarf að tryggja málum stuðning og brautargengi,“ sagði Steingrímur.
Steingrími finnst hann skynja mikla samúð með sjónarmiðum Íslendinga hjá AGS og stuðning við að það geti ekki gengið endalaust að mál okkar tefjist. Einnig að sjóðnum þyki mjög vandræðalegt að mál okkar hafi frestast þrátt fyrir að Ísland hafi unnið hlutina eins og til var ætlast og fengið miklu áorkað.
Steingrímur var spurður hvort tenging við Icesave hafi verið rædd á fundinum. Hann sagði hana ekki hafa verið deilumál á fundinum en kvaðst ekki ætla að rekja í einstökum atriðum hvað fór á milli manna.
„Þetta var hreinskiptinn fundur og menn voru ekkert að skafa utan af því. Töluðu bara um stöðuna eins og hún er. Það var gagnlegt,“ sagði Steingrímur.
Enn er beðið eftir tilkynningu frá Rússum um stöðu lánveitingar frá þeim til Íslands. Steingrímur sagði að samkomulag sé um að þeir muni útskýra sína stöðu í málinu og að Íslendingar muni ekki tjá sig mikið um málið á meðan. Steingrímur kvaðst ætla að halda sig við það.
„Eins og mál hafa þróast höfum við ekki endilega gert ráð fyrir að það myndi mikið gerast með það lán í bili,“ sagði Steingrímur. „Við teljum að fjármögnunin sé orðin prýðilega tryggð þegar þetta er komið í höfn, lánin frá Norðurlöndunum, Færeyjum og Póllandi. Sumir telja jafnvel að það sé meira en við þurfum.“
Steingrímur ætlaði einnig að hitta aðstoðarframkvæmdastjóra AGS sem heitir Murilo Portugal. Sá misskilningur kom fram í Morgunblaðinu í gær að hann ætlaði að hitta portúgalska sendinefnd. Það var hins vegar Portúgal sjálfur sem Steingrímur hitti nú síðdegis í Tyrklandi.
Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hófst formlega í Istanbúl í Tyrklandi í dag.