Krafa um auknar arðgreiðslur

mbl.is/Ómar

Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og stjórnarmaður í OR, segir að borgarstjóri hafi sent fulltrúum Reykjavíkurborgar í stjórnum B-hluta fyrirtækja borgarinnar bréf þar sem farið sé þess á leit að fyrirtæki borgarinnar skili eigendum sínum auknum arði á næsta ári.

Hún segir að stærsti liðurinn sé krafa um auknar arðgreiðslur Orkuveitu Reykjavíkur, en farið sé fram á að þær hækki um 1.350 milljónir sem sé nálega þreföldun á núverandi arðgreiðslum sem yrðu þá rúmir 2,1 milljarður. Ljóst sé að fjárhagsstaða OR sé mjög þröng. Tapið á árinu 2008 hafi verið 73 milljarðar.

Dulbúin skattheimta

„Rík krafa er um að OR haldi áfram virkjunarframkvæmdum til aukinnar raforkuframleiðslu. Þar sem erlend fjármögnun á 5. og 6. áfanga Hellisheiðarvirkjunar hefur brugðist var samþykkt á síðasta stjórnarfundi Orkuveitunnar að heimila fyrirtækinu að fara í 10 milljarða skuldabréfaútboð á innlendum markaði, til að freista þess að hægt verði að halda áfram með framkvæmdir við Hellisheiðarvirkjun.

Vegna stöðu fyrirtækisins er óhjákvæmilegt að ráðist verði í stórfellda hagræðingu í rekstri og jafn ljóst er að kröfu borgarinnar um auknar arðgreiðslur verður ekki mætt með hagræðingu enda fjárþörf OR vegna framkvæmda langt umfram mögulega hagræðingu.
Borgin fer nú fram á um 2,1 milljarð í arðgreiðslur en til viðmiðunar má benda á að laun og launatengd gjöld sem OR greiddi árið 2008 voru tæpir 5 milljarðar.

Þannig verður kröfu um arðgreiðslur ekki mætt með öðrum hætti en frestun framkvæmda, aukinni lántöku og þar með enn lægra eiginfjárhlutfalli OR eða hækkunar á gjaldskrá sem er þá ekkert annað en dulbúin skattheimta á notendur þjónustunnar,“ segir Sigrún Elsa í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert