Markmið stöðugleikasáttmála ekki í nánd

Bið hefur orðið á að hjólin færu að snúast að …
Bið hefur orðið á að hjólin færu að snúast að nýju. Kristján Kristjánsson

ALLT bendir til þess að markmiðin sem íslensk stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins settu í sér með stöðugleikasáttmálanum 25. júní í sumar muni ekki nást á þeim tíma sem stefnt var að. „Forsendur stöðugleikasáttmálans hafa allar meira eða minna skolast í burtu. Þar ræður Icesave-málið auðvitað miklu, þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist beita sér af hörku gegn okkur. En það hefur líka haft mikil áhrif á stöðuna að stjórnvöld hafa með beinum hætti unnið gegn því að hjólin geti farið að snúast hér að nýju,“ segir Vilmundur Jósefsson, formaður stjórnar Samtaka atvinnulífsins.

Óvissa um markmiðin

Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, segir stöðu mála grafalvarlega. „Það svigrúm sem aðilar vinnumarkaðarins voru tilbúnir að gefa stjórnvöldum til þess að taka ákvarðanir um endurreisn íslensks efnahagslífsins hefur verið illa nýtt. Frá því í lok júní og til þessa hefur lítið sem ekkert gerst og vandamálin að stærstum hluta þau sömu. Svo standa stjórnvöld fyrir sérkennilegum ákvörðunum sem setja framkvæmdir sem komnar eru af stað í uppnám,“ segir Gylfi og vitnar til fyrrnefndrar ákvörðunar umhverfisráðherra.

Ekki of mikið í skattahækkanir

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er nokkur óánægja innan ríkisstjórnarinnar, einkum meðal ráðherra Samfylkingarinnar, með það hvernig auðlindaskatturinn, sem mun m.a. leggjast á álfyrirtæki sem kaupa raforku af íslenskum orkufyrirtækjum, var kynntur í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Þannig mun Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra m.a. hafa talað fyrir því að útfærslan á þessari skattheimtu verði vönduð og unnin betur en kynning í fjárlagafrumvarpinu gefur til kynna. „Óvissan sem nýframlagt fjárlagafrumvarp hefur skapað fyrir atvinnulífið, m.a. vegna skattahækkana er mjög skaðleg. Það hefur verið vitað að skattahækkanir væru framundan og ég tel að þær hafi verið óumflýjanlegar. En þegar þær birtast að stórum hluta óunnar í fjárlagafrumvarpi grípur um sig mikil hræðsla í atvinnulífinu. Einmitt vegna óvissunnar. Mikilvægast er að vanda til verka,“ segir Vilmundur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert