Meint trúnaðarbrot til athugunar

Óskar Magnússon.
Óskar Magnússon.

Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, segir að einstakir tölvupóstar blaðamanna blaðsins, sem sendir hafi verið í kjölfar uppsagna á blaðinu, sæti engri skoðun. Hins vegar sé verið að athuga meint trúnaðarbrot fyrrverandi starfsmanns sem hafi boðið öðrum fjölmiðli trúnaðarupplýsingar frá blaðinu.

Fram kemur í DV í dag, að fyrrverandi blaðamaður Morgunblaðsins hafi kvartað til stjórnar Blaðamannafélagsins og segi að Óskar hafi lesið tölvupóst starfsmanna til að komast að því hver læki upplýsingum af ritstjórn blaðsins til annarra starfsmanna. Þetta hafi verið gert eftir að tölvubréf Ragnhildar Sverrisdóttur, fyrrverandi umsjónarmanns helgarblaðs Morgunblaðsins, til starfsmanna blaðsins, birtist í heilu lagi á vef DV.

Þá kemur fram að starfsmaðurinn fyrrverandi sé að undirbúa formlega kæru til Persónuverndar vegna málsins.

Óskar sagði við mbl.is að hann vildi ekki fjalla um mál einstakra starfsmanna en hann gæti þó staðfest, að verið sé að athuga trúnaðarbrot fyrrverandi starfsmanns, sem bauð DV til birtingar trúnaðarkönnun sem gerð var fyrir Morgunblaðið. Það væri eina málið, sem hafi verið til athugunar innan blaðsins en ekki einstök bréfaskipti starfsmanna. Einstakir tölvupóstar, sem borist hafi frá blaðamönnum í kjölfar uppsagna starfsfólks í lok september, sæti engri skoðun, eins og títtnefndur tölvupóstur Ragnhildar sem hafi verið yndislegur og mjög jákvæður.

Óskar sagðist fagna því ef Persónuvernd fjallaði um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert