Fréttaskýring: Miklar breytingar á Stjórnarráðinu

Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg
Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg Jim Smart

Nafni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins var breytt í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti um mánaðamótin. Þetta eru talsverð tíðindi, því ráðuneytið hefur haft þetta heiti allt frá árinu 1917, eða í meira en 90 ár. Fyrstur til að fara með ráðuneytið var Jón Magnússon, en hann var jafnframt forsætisráðherra.

Við breytinguna flytjast nokkur verkefni til ráðuneytisins, svo sem framkvæmd sveitarstjórnarkosninga, málefni er varða mansal, fasteignamat og skráning fasteigna og neytendamál.

Viðskiptamálin breytast mikið

Nafn viðskiptaráðuneytisins breyttist í efnahags- og viðskiptaráðuneyti og gerð er umtalsverð breyting á verkefnum þess og skipulagi. Til ráðuneytisins fluttist m.a. forræði efnahagsmála sem var bæði í forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Málefni Seðlabanka Íslands flytjast til ráðuneytisins þannig að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands heyra nú undir sama ráðuneyti. Starfsemi efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytisins fluttist einnig til ráðuneytisins. Þá fluttist til ráðuneytisins hluti af efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, en í fjármálaráðuneytinu verða áfram verkefni sem unnin hafa verið á efnahagsskrifstofu ráðuneytisins og tengjast fjárlagagerð og stjórn ríkisfjármála, svo sem tekjuáætlun fjárlaga og mat á tekjuáhrifum skattbreytinga. Málefni Hagstofu Íslands fluttust frá forsætisráðuneytinu til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og hjá Hagstofu Íslands verður sett á fót sjálfstæð rannsóknareining sem fylgist með afkomu þjóðarbúsins, semur þjóðhagsspár og birtir opinberlega. Þá eru færð frá ráðuneytinu til utanríkisráðuneytisins verkefni sem tengjast umsýslu alþjóðlegra viðskiptasamninga.

Nafni menntamálaráðuneytisins var breytt í mennta- og menningarmálaráðuneyti og flutt til þess verkefni á sviði menningarmála frá forsætisráðuneytinu og lög um prentrétt frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og er þá samankomin á einn stað öll löggjöf um fjölmiðla.

Nafni samgönguráðuneytisins var breytt í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Er það gert til þess að leggja áherslu á mikilvægi sveitarstjórnarmála sem fluttust til ráðuneytisins í byrjun árs 2008.

Fjármálaráðuneytið heldur nafninu óbreyttu. En til ráðuneytisins fluttist eignarhald ríkisins í opinberum hlutafélögum sem verið hefur á forræði annarra ráðuneyta. Um er að ræða eftirfarandi félög: RÚV, Íslandspóst, Farice, Landskerfi bókasafna, Austurhöfn og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Markmiðið með tilfærslunni er að tryggja samræmda stefnu varðandi eignarhluti ríkisins í hlutafélögum og auka trúverðugleika á hlutverki ríkisins sem eiganda, eins og það er orðað.

Þær breytingar sem boðaðar hafa verið munu óhjákvæmilega leiða fækkunar ráðherra og annarra starfsmanna að einhverju leyti. Þá mun sameining ráðuneyta leiða til þess að endurskipuleggja þarf húsnæðismál þeirra.

Enn verður fækkað

Ríkisstjórnin hefur boðað enn frekari breytingar á ráðuneytum og er stefnt að því að fækka þeim úr 12 í 9. Í lok þessa árs á að leggja fyrir Alþingi frumvörp sem kveða á um sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Þá á að endurskoða verkaskiptingu milli nýs atvinnuvegaráðuneytis og umhverfisráðuneytis með stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Atvinnu- og samgöngumálaráðuneyti var stofnað þegar árið 1917. Síðasti atvinnumálaráðherrann var Jóhann Þ. Jósefsson 1947 til 1949. Þá var ráðuneytinu skipt upp í einstök ráðuneyti helstu atvinnuvega þjóðarinnar, en nú er boðað að þetta heiti verði tekið upp að nýju.

Þá verður unnið að því að félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti sameinist í velferðarráðuneyti og dóms- og mannréttindaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sameinist í innanríkisráðuneyti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert