26 lönd, þ. á m. Bandaríkin, Bretland, Ástralía, Þýskaland, Frakkland og Spánn, hafa sameinast um að þrýsta á Ísland að hætta hvalveiðum. Í sameiginlegri yfirlýsingu segjast þjóðirnar vera „afar vonsviknar“ yfir því að hvalveiðar hafi verið leyfðar á ný.
Íslensk hvalveiðiskip hafa veitt yfir 200 hvali síðan í júní. „Mér þykir afar leitt að heyra að um 200 hvalir hafi verið veiddir fram að þessu,“ segir Huw Irranca-Davies, ráðherra í ríkisstjórn Bretlands. Áþekk yfirlýsing var gefin út af 26 þjóðum í nóvember 2006.
Stuttu áður en yfirlýsingin var gefin út sl. föstudag voru haldin mótmæli fyrir utan íslenska sendiráðið í London. Íslensk stjórnvöld voru hvött til að bregðast við alþjóðlegu gagnrýninni og einbeita sér frekar að hvalaskoðun sem væri mannúðlegur og gróðavænlegur kostur, frekar en grimmdarlegar veiðar.
Robbie Marsland, yfirmaður hjá alþjóðlegum samtökum sem berjast fyrir velferð dýra sagði: „Augu heimsins beinast að Íslandi og við hvetjum Íslendinga til að hætta þessari grimmu og óþörfu slátrun hvala. Íbúar Bretlands og fjölda annarra landa víðsvegar um heiminn fordæma hvalveiðar í atvinnuskyni.“