Vestia eignast Húsasmiðjuna

mbl.is/Ómar

Tillaga fráfarandi stjórnar um að afskrifa allt hlutafé þáverandi eigenda í Húsasmiðjunni og gefa út nýtt hlutafé var samþykkt á aðalfundi félagsins í dag. Húsasmiðjan var í eigu Haga, Saxsteins og Byrs.

Jafnframt samþykktu hluthafar að afsala sér forkaupsrétti á nýjum hlutum og í kjölfarið skráði Eignarhaldsfélagið Vestia ehf., dótturfélag Landsbankans, sig fyrir nýju lögboðnu lágmarkshlutafé í félaginu. Húsasmiðjan er því nú að fullu í eigu Eignarhaldsfélagsins Vestia. Steinn Logi Björnsson er áfram forstjóri Húsasmiðjunnar.

„Rekstur Húsasmiðjunnar hefur að undanförnu ekki farið varhluta af samdrætti í íslensku efnahagslífi, gengisfalli íslensku krónunnar og hruni á byggingamarkaði. Stjórn og stjórnendur félagsins hafa brugðist við þessum erfiðu aðstæðum með afgerandi rekstraraðgerðum. Hagrætt hefur verið á mörgum sviðum, starfsfólki fækkað, verslanir sameinaðar eða þeim lokað og mikið átak gert í birgðamálum.

Þessar aðgerðir hafa þegar skilað árangri og gera áætlanir stjórnenda ráð fyrir að rekstur félagsins skili jákvæðu sjóðsstreymi á árinu þrátt fyrir minnkandi sölu á byggingavörumarkaði. Rekstur félagsins er því í viðunandi horfi, lausafjárstaða er góð og félagið í skilum við birgja og lánardrottna. Hins vegar hefur óhagstæð þróun á gengi íslensku krónunar haft neikvæð áhrif á skuldsetningu Húsasmiðjunnar. Af því leiðir að nauðsynlegt er að koma á nýrri fjárhagslegri skipan hjá félaginu,“ segir í tilkynningu frá Húsasmiðjunni

Húsasmiðjan rekur 16 verslanir undir nafni Húsasmiðjunnar og sjö verslanir eða verslunardeildir undir nafni Blómavals. Þá rekur félagið Ískraft sem er heildsala á rafmagns- og raflagnamarkaði með fimm verslanir. Loks rekur Húsasmiðjan heildverslunina HG Guðjónsson sem sérhæfir sig í þjónustu við trésmíðaverkstæði og innlenda framleiðendur innréttinga. Húsasmiðjan rekur einnig tvö miðlæg vöruhús og dreifingarmiðstöð,  trésmiðju og rafmagnsverkstæði. Í september störfuðu 626 manns hjá hjá Húsasmiðjunni í 549 stöðugildum.

Vestia er eignarhaldsfélag, sem Landsbankinn stofnaði til að bera ábyrgð á umsýslu og ráðstöfun eignarhalds í atvinnufyrirtækjum sem bankinn fær í hendur í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar sem felur það í sér að kröfum bankans er breytt í hlutafé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert