Þingflokksfundur Vinstri grænna er hafinn og er búist við mjög löngum fundi. Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, mun gera grein fyrir umræðum sem hann átti á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Tyrklandi um Icesave og efnahagsáætlun sjóðsins. Einnig verður rætt um ríkisstjórnarsamstarfið.
Heyra má sama tón í öllum þingmönnum flokksins, þ.e. að þeir séu mættir til að leysa málin. Fundurinn fer fram á skrifstofum flokksins í Aðalstræti, í gömlu Moggahöllinni svokölluðu.
Aðspurður segist Steingrímur búast við góðum fundi í kvöld. Farið verði vel yfir málin. „Þetta er góður hópur. Við erum öll vinir og félagar, og viljum vera það áfram,“ sagði Steingrímur þegar hann var spurður hvort hann ætti von á því að væringarnar innan flokksins myndu skilja eftir sig sár.
Spurður um ferð sína til Istanbúl, þar sem ársfundur AGS og Alþjóðabankans fór fram, segist Steingrímur ekki hafa farið erindisleysu. „Ég held að það hafi ekki verð undan því vikist að fara í þessa ferð vegna þess að við áttum svo mörg erindi, og staða okkar svo sérstök. Tengist svo mörgu sem þarna er á dagskrá,“ segir Steingrímur.
Hann vísar því á bug að íslensku sendinefndinni hefði verið tekið illa í Tyrklandi. „Ég held að það sé vaxandi skilningur á því að Ísland er í mjög sérstakri stöðu. Jafnvel vaxandi skilningur á því að við höfum sætt dálítið ósanngjörnum kostum. Það sé ósanngjarnt að okkar mál séu föst vegna óskyldra deilumála. Það er að verða hin vandræðalegasta staða fyrir alla. Ekki síst fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sjálfan. Og það er mikill áhugi á því að reyna að komast út úr þeirri herkví, sem þessi mál hafa verið í.“