Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, telur aðgerðir félagsmálaráðherra um endurskipulagningu á greiðslubyrði og skuldum heimilanna vegna húsnæðis- og bílalána ekki ganga nógu langt. Hún vill að verðtrygging verði afnumin sem fyrst og að gjaldþrota einstaklingar beri ekki ábyrgð á þeim skuldum sem eftir standa.
Þessi orð lét Lilja falla við umræðu um stöðu heimilanna í landinu á Alþingi í dag. Í kjölfarið tók Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, undir orð hennar.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokks, hóf umræðuna. Hann sagði þingmenn þurfa að koma upp úr skotgröfunum, spara yfirlýsingarnar og reyna að finna samhljóm í þessu ógnarstóra verkefni. Hann hvatti félagsmálaráðherra til þess að farið verði í afskriftir á höfuðstóli lána sem fyrst, og bent á að Ísland komist ekki út úr kreppunni með því einu að hækka skatta.
Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, sagði mestu máli skipta að tryggja fólki greiðslubyrði sem lagt var upp með fyrir hrun. Í skoðun ráðuneytisins hafi komið í ljós að um 20 þúsund einstaklingar sem stóðu í skilum fyrir hrun stefndu í þrot. Þeir einstaklingar voru með sambærilegar tekjur og áður en skuldabyrðin hafi vaxið þeim um höfuð. Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar hafi áhætta verið færð af fólki og yfir á bankanna.
Anna Pála Sverrisdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist í jómfrúarræðu sinni hafa miklar áhyggjur af ungu fólki sem fjárfesti í sinni fyrstu íbúð fyrir hrun. Hins vegar sé ríkisstjórnin að koma til móts við það fólk með aðgerðum sínum sem sé af hinu góða.
Árni Páll lauk svo umræðunni og þingfundi dagsins. Hann sagðist ekkert sjá annað en jákvætt sjá við að búa þannig um, að hægt verði að flytja lán yfir í íslensk kjör. Í þeim efnum reyni á lánastofnanir að bjóða viðskiptavinum sínum slíka kosti.