Gengið að húsi Hannesar

Hannes Smárason.
Hannes Smárason. mbl.is/Golli

Landsbankinn hefur gengið að félaginu Fjölnisvegi 9 ehf, sem var í eigu Hannesar Smárasonar. Félagið á Fjölnisveg 11 í Reykjavík og íbúð í London. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum er bankinn búinn að leysa eignirnar til sín.

„Það var gengið að þessum veðum sem bankinn hafði,“ segir upplýsingafulltrúi Landsbankans, í samtali við mbl.is.

Húsið að Fjölnisvegi 9 er í eigu sambýliskonu Hannesar.

Persónuleg útgjöld upp á tugi milljóna króna vegna alls frá einkaþotum til bíómiða er meðal þess sem Hannes Smárason virðist hafa fært á viðskiptamannareikning sinn hjá FL Group og öðrum félögum honum tengdum. Hannes var áður stjórnarformaður og forstjóri FL Group. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð Ríkislögreglustjóra vegna meintra auðgunar- og skattalagabrota, sem lá  til grundvallar húsleitar þann 3. júní sl. hjá lögmannsþjónustunni LOGOS og á Fjölnisvegi 9 og 11.

Í greinargerðinni er lýst miklum fasteignagjörningum um m.a. Fjölnisveg 9 og 11, sem Hannes og sambýliskona hans eru sögð hafa keypt á undirverði. Þar segir að ætla megi að kaup félagsins á fasteignum hafi ekki verið gerð í ábataskyni heldur sé hugsanlega um málamyndagerning að ræða. Ljóst sé að rökstuddur grunur sé um skattsvik. Þá er og fjallað um félögin Hlíðarsmári 6 ehf. og Oddaflug.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert