Guðrún Agnarsdóttir hefur óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri Krabbameinsfélagsins um næstu áramót. Starf forstjóra verður auglýst á næstunni.
Krabbameinsfélagið stendur á vissum tímamótum um þessar mundir þar sem verið er að leggja lokahönd á nýja stefnumótun félagsins. Guðrún segir fara vel á því að nýr forstjóri taki að sér að framkvæma og leiða það umfangsmikla starf sem er framundan. Félagið hafi náð miklum árangri á þeim rúmu tveimur áratugum sem hún hefur tekið þátt í starfi Krabbameinsfélagsins og það sé einlæg ósk hennar að félagið megi áfram vaxa og dafna, þjóðinni til heilla.