Eftir Karl Blöndal
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfi „að hverfa úr landi hið bráðasta“ og bætir við: „Við höfum ekkert við hann að gera hér.“
Ögmundur segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að það sé goðsögn og ímyndun að vitneskja um gjaldeyrisvaraforða, sem allur er á lánum, verði til að styrkja gjaldmiðil. „Ég hef aldrei fengið nægilega góð svör við því hvers vegna við þurfum 5,2 milljarða Bandaríkjadollara í gjaldeyrisvaraforða. Af hverju ekki 1,6 eða 2,6 milljarða? Þetta eru spurningar sem aldrei hefur verið svarað. Þegar grannt er skoðað mun þessi gjaldeyrisforði kosta okkur í vexti á hverju ári tæplega tuttugu milljarða króna nettó.“
Afsögn Ögmundar úr embætti ráðherra helgaðist af því að hann vill „opið, lýðræðislegt, kraftmikið samfélag og að við högum vinnubrögðum okkar á þá lund að það styrki undirstöður þess en veiki þær ekki“. Hann segir að sér hafi sárnað aðdróttanir um að hann væri að skorast undan erfiðum verkefnum í heilbrigðisráðuneytinu. Væri svo hefði hann einfaldlega sagt það.
Ögmundur segir að takist ríkisstjórninni að taka á málum sem varða AGS, vexti, hinn bratta niðurskurð í velferðarmálum og aðkomu erlendra sérfræðinga að ráðgjöf eigi hún „góða möguleika á að þjappa þjóðinni saman. Takist þetta ekki þarf hún náttúrlega að hugsa sinn gang.“