Golfklúbburinn á Eskifirði er kominn í þrot og hefur verið óskað eftir að hann verði tekinn til skipta. Myntkörfulán sem tekið var vegna framkvæmda hækkaði verulega og sligaði að lokum reksturinn.
Bærinn á landið í Byggðarholti þar sem golfklúbburinn er og sömuleiðis húsnæði. Nýr golfklúbbur hefur verið stofnaður á nýrri kennitölu og heldur áfram starfseminni.
„Því miður fór þetta svona. Þegar lán sem við tókum upp á 16 milljónir var komið í um 40 milljónir neyddumst við til þess að fara í Landsbankann og óska eftir að klúbburinn yrði tekinn til gjaldþrotaskipta,“ segir stjórnarmaður í klúbbnum. Einnig skuldar klúbburinn Lýsingu um 15 milljónir.
Í sumar þegar ljóst var orðið að GE yrði gjaldþrota var golfklúbburinn Gríma stofnaður. Skuldir voru færðar yfir í Grímu, sem væntanlega verður gerður upp sem þrotabú. Golfklúbbur Eskifjarðar var síðan stofnaður að nýju á nýrri kennitölu.
Meira um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.