Lækka húsaleigu Húsasmiðjunnar

Húsasmiðjan
Húsasmiðjan mbl.is/Ómar

Eik fasteignafélag ætlar að lækka tímabundið leigu á húsnæði Húsasmiðjunnar og tengja leiguna að hluta við rekstrarárangur Húsasmiðjunnar á næstu árum, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

Þá ætlar Eik fasteignafélag að losa Húsasmiðjuna undan einum leigusamning þar sem enginn rekstur er. Áætluð áhrif þessa á eigið fé Eikar fasteignafélags eru um tvö hundruð milljónir króna.

Húsasmiðjan er stærsti leigutaki Eikar fasteignafélags félagsins. Í fyrra komu um 31% leigutekna Eikar fasteignafélags frá Húsasmiðjunni. Frá því var greint í skýrslu stjórnar Eikar fasteignafélags í árshlutareikningi sem birtur var í ágúst s.l. að Húsasmiðjan hafi óskað eftir viðræðum um leigulækkun í tengslum við endurfjármögnun fyrirtækisins.

Reyna að hjálpa þeim sem þurfa hjálp

Eik fasteignafélag sérhæfir sig í kaupum og útleigu á atvinnuhúsnæði. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar
fasteignafélags, var spurður hvort fleiri leigutakar væru í sömu stöðu og Húsasmiðjan var komin í.

„Það er allur gangur þar á,“ sagði Garðar. „Við reynum að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda. Þá setjumst við niður og förum yfir stöðuna og hvers konar aðstoð menn þurfa. Ef á þarf að halda aðlögðum við leiguna. Þetta endurspeglar það sem er að gerast í þjóðfélaginu.“

Ekki er mikið um að leigutakar vilji losna úr leigu húsnæðis hjá Eik fasteignafélagi, að sögn Garðars. Ef það kemur til er reynt að koma til móts við menn. Í nokkrum tilvikum hefur leigutökum verið útvegað minna húsnæði til að lækka húsaleiguna. 

Garðar telur offramboð á skrifstofuhúsnæði vera orðum aukið. „Það er meira framboð en eftirspurn. Hér er 8% atvinnuleysi og stór hluti af því tengist byggingargeiranum en ekki skrifstofugeiranum. Menn ofgera líka hvað mikið skrifstofuhúsnæði er autt. Það er líka misjafnt hvers konar húsnæði er á lausu. Það er t.d. ekki mikið af 100-200 fermetra góðu skrifstofuhúsnæði á flottum stað á lausu,“ sagði Garðar.

Hann sagði talsvert mikið hringt til Eikar fasteignafélags til að spyrja um húsnæði. „Markaðurinn hefur ekki verið jafn slæmur og maður óttaðist fyrir ári síðan,“ sagði Garðar.

Eik fasteignafélag hefur ekki keypt húsnæði undanfarið. Garðar sagði lánsfé ekki liggja á lausu og markaðinn hafa verið freðinn í kaupum og sölu. Leigumarkaðurinn hefur hins vegar verið líflegur. 

Ástandið er ekki ólíkt hér og á Norðurlöndum og víðar í Evrópu. Garðar sagði að seljendur sætti sig ekki við verðlækkun og ætli að þrauka áfram. Kaupendur hafi allt aðrar hugmyndir um fasteignaverðið. Kaupendur og seljendur séu því ekki á sama stað og því enginn markaður.

„Markaðurinn einkennist af fáum viðskiptum og mörg af þeim sem verða eru þvinguð viðskipti,“ sagði Garðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert