Velvilji í garð Íslands er áberandi meðal Norðmanna, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins og alþingismanns. Hann fór til Noregs í morgun ásamt Höskuldi Þórhallssyni alþingismanni til að ræða samskipti landanna og möguleika á lánveitingu.
„Þeir leggja mikla áherslu á að það sem þeir hafi heyrt frá Íslandi, að Norðurlöndin hafi ekki áhuga á að aðstoða Íslendinga, sé ekki rétt hvað þá varði. Þeim er mikið í mun að leiðrétta það. Hljóðið í þeim er mjög gott,“ sagði Sigmundur í samtali við mbl.is
Í dag hafa þeir félagar verið á undirbúningsfundum. Dagskráin breyttist nokkuð vegna þess að hraðar gekk að mynda nýja ríkisstjórn í Noregi en reiknað hafði verið með og var verið að kynna hana í dag. Fundaskrá morgundagsins er orðin þéttskipuð.
„Í fyrramálið byrjum við á fundi með þingflokki Miðflokksins en Miðflokkurinn bauð okkur formlega og hefur komið á fundi okkar með fulltrúum hinna stjórnarflokkanna, Sósíalistaflokksins og Verkamannaflokksins.
Eftir það förum við í fjármálaráðuneytið og ef til vill fleiri ráðuneyti. Þá hittum við fulltrúa úr fjárlaganefnd Stórþingsins og svo er gert ráð fyrir að ljúka deginum með fundi í norska seðlabankanum,“ sagði Sigmundur.
Þeir félagarnir ætla að koma heim á föstudag. Það er því tími til frekari fundarhalda á föstudagsmorgun ef þörf krefur.