Flest bendir nú til þess að þverpólitískur meirihluti sé að myndast á Alþingi fyrir því að taka samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til endurskoðunar. Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra sagði í Kastljósi í gær að hann mælti að vísu ekki með því að lán frá AGS yrðu afþökkuð en hann vildi þó ekki koma með einhverjar dómsdagsspár um áhrifin af slíkri stefnubreytingu. Vafalaust fengju Íslendingar þá áfram lán en á verri kjörum.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hitti yfirmann AGS, Dominique Strauss-Kahn, að máli í gær í Istanbúl og sagðist afar ánægður með þann fund, skilningur á málstað Íslands hefði aukist. En Strauss-Kahn þyrfti að sjálfsögðu að fá meirihluta stjórnar AGS með sér.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill taka til endurskoðunar samskipti Íslands við AGS og efast um að rétt sé að fá frekari lán. Íslendingar geti öðlast að nýju traust á alþjóðavettvangi með trúverðugri áætlun um ríkisfjármál og hóflegri skuldsetningu.
„Það gerist ekki með því að hlaupa út um allar jarðir og taka lán,“ sagði Bjarni í umræðum á Alþingi í gær.
„Þessi afstaða til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skiptir í sjálfu sér ekki miklu fyrir stjórnarsamstarfið, við erum ekki að fara að greiða atkvæði um hana, nema bara óbeint. Ég trúi því ekki að Jóhanna Sigurðardóttir láti stjórnina falla á afstöðu VG til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Icesave. En ég sagði á Alþingi að samstarfið væri ekki óbreytanlegt.
Við höfum alltaf haft miklar efasemdir um það hvort taka beri lán til að afnema gjaldeyrishöftin. Það eru til miklu betri leiðir til þess, hægt er að nota skattlagningu á gjaldeyrisútstreymið. AGS talaði um að semja yrði við erlenda kröfuhafa þannig að skuldabyrðin yrði það sem kallað var sjálfbær. En síðan hefur komið í ljós að AGS er tilbúinn að breyta mati sínu á því hvað er sjálfbært eftir því sem hentar eigendum sjóðsins. Þá er ekki auðvelt fyrir mig að réttlæta veru sjóðsins hér.“